Norska ríkið seldi sinn hlut í SAS

Skandinavísku ríkisstjórnirnar eiga ekki lengur samleið í flugrekstri.

sas 860 a
Mynd: SAS

Norska ríkið hefur selt 9,88 prósenta hlut sinn í skandinavíska flugfélaginu SAS. Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi í Ósló seinnipartinn í gær og var söluverðið 597 milljónir norskra króna sem jafngildir um 7,8 milljörðum íslenskra króna. Í frétt Dagens Næringsliv kemur fram að kaupendurnir séu norskir og erlendir fjárfestar og að kaupverðið verði lagt inn á bók í norska seðlabankanum.

Með brotthvarfi Norðmanna úr hluthafahópnum verða ákveðin tímamót í sögu SAS því danska, sænska og norska ríkið hafa sameiginlega farið með stóran hlut í flugfélaginu. Norskir ráðamenn hafa þó lengi látið í veðri vaka að þeir væru reiðubúnir til að selja hlut ríkisins í SAS og Svíar hafa verið á sömu línu. Sænski ríkiskassinn er stærsti einstaki hluthafinn í flugfélaginu með 14,8 prósent en Danir eiga 14,2 prósent. Þar í landi hefur ekki verið hljómgrunnur fyrir því að selja hlutinn.

Lengstum hefur SAS verið stærsta flugfélag Norðurlanda en í fyrra tók Norwegian fram úr þegar litið er til fjölda farþega. Umsvif þess síðarnefnda takmarkast hins vegar ekki við Skandinavíu því félagið er með starfsemi víða í Evrópu. Staða Norwegian er hins vegar veik og nýverið þurfti félagið að óska eftir auknu hlutafé og móðurfélög British Airways og Lufthansa hafa lýst yfir áhuga á að kaupa félagið.

SAS flýgur til Íslands frá Ósló og Kaupmannahöfn allt árið um kring.