Óljóst með framhald á flugi til Tel Aviv

Það er ekki víst að þotur WOW air muni fljúga til Ísrael í vetur.

Frá Tel Aviv. Mynd: WOW air

Það var um miðjan september í fyrra sem WOW air fór jómfrúarferð sína til Ben Gurion flugvallar í Tel Aviv. Síðan þá hefur félagið flogið þangað fjórum sinnum í viku en samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins gætu þessar ferðir lagst af í haust. Blaðið hefur það eftir Svanhvíti Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa WOW, að flugið hafa gengið vel en á móti komi að lendingargjöld á flugvellinum í Tel Aviv séu há og að flugið, sem tekur sjö klukkustundir, sé kostnaðarsamt.

Þess má geta að skandinavíska flugfélagið SAS lagði niður flug sitt til Tel Aviv fyrir tveimur árum síðan og ástæðan var sögð hár kostnaður enda eru gerðar strangar öryggiskröfur í flugi til og frá Ísrael.

Frá því að beinar flugsamöngur milli Íslands og Ísrael komust á þá hefur hótelnóttum ísraelskra ferðamanna hér á landi fjölgað um 38 prósent. Voru þær rúmlega sjö þúsund í vetur sem er aukning um tvö þúsund gistinætur frá þarsíðasta vetri samkvæmt talningu Hagstofunnar.

Eins og staðan er núna er aðeins hægt að bóka flug með WOW til þessarar næst ísraelsku borgarinnar fram í lok október en þá lýkur sumaráætluninni formlega.