Primera Air aflýsir Ameríkufluginu frá Birmingham

Flugfélag Andra Más Ingólfssonar hefur fellt niður allar ferðir frá Birmingham til Norður-Ameríku. Ástæðan skrifast á seinagang í verksmiðjum Airbus.

Airbus verksmiðjurnar náðu ekki að afhenda Primera þoturnar í tíma. Tölvumynd: Primera Air

Undir lok þessa mánaðar stóð til að Primera Air myndi hefja áætlunarflug frá bresku borginni Birmingham til Norður-Ameríku. Upphaflegu plönin gerðu ráð fyrir ferðum til New York, Washington, Toronto og Boston en hætt var við flugið til þeirrar síðastnefndu í febrúar. Í dag þurfti Andri Már Ingólfsson, eigandi Primera Air, svo að gefa það út að ekkert verði af flugi Primera Air vestur um haf frá Birmingham í sumar. Ástæðan er dráttur á afhendingu nýrrar Airbus þotu samkvæmt því sem haft er eftir Andra Má í fréttum í Bretlandi. Athygli vekur að forsvarsmenn Primera Air hafa ákveðið að aflýsa öllum ferðum í stað þess að leigja flugvélar og Ameríkuflugi félagsins frá Birmingham hefur því verið seinkað til næsta árs.

Seinkanir á nýjum Airbus þotum hafa ekki áhrif á flugáætlun Primera Air frá Stansted við London en þaðan flýgur félagið til Bandaríkjanna og Toronto. Ekkert annað flugfélag býður upp á beint flug til Ameríku frá Stansted en nokkur flugfélög hafa spreytt sig á því undanfarin ár. WOW air hóf svo flug til Stansted í vor og býður upp á flug þaðan, með millilendingu  á Íslandi, til sömu áfangastaða í N-Ameríku og Primera Air gerir.

Jafnvel þó Primera Air sé í eigu Íslendinga þá er félagið ekki með íslenskt flugrekstrarleyfi heldur letneskt. Flugfélagið mun hins vegar bjóða upp á vikulegar ferðir milli Íslands og Birmingham í vetur.