Reiknar með hækkandi nýtingu á hótelum í sumar

Í vor lækkaði herbergjanýtingin á reykvískum hótelum þónokkuð og var sambærileg við það sem þekkist í höfuðborgum Skandinavíu. Framkvæmdastjóri Íslandshótela telur að staðan í sumar verði álíka og síðustu ár.

Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela. Myndir: Íslandshótel

Vöxturinn í íslenskri ferðaþjónustu er ekki lengur mældur tugum prósenta og í vor stóðu fleiri hótelherbergi tóm í höfuðborginni en áður. Engu að síður hefur herbergjanýtingin á reykvískum hótelum verið þónokkru hærri en í hinum norrænu höfuðborgunum. Í Reykjavík nam hún 79 prósentum fyrstu fjóra mánuði ársins en næst á eftir kemur Ósló með 65 prósent nýtingu. Hótelin eru verst nýtt í Stokkhólmi þar sem innan við sjötta hvert herbergi var að jafnaði bókað. Staðan í íslensku höfuðborginni er því mun sterkari þrátt fyrir að hótelherbergjum þar hafi fjölgað verulega síðustu ár.

„Við erum að falla inn í sama mynstur og í borgunum kringum okkur með lægri nýtingu í apríl og maí. Meðalverðið er þó áfram hærra á íslenska markaðnum,“ segir Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, stærsta hótelfyrirtækis landsins, aðspurður um þessa þróun mála. Hann segist gera ráð fyrir að í sumar verði hlutfall seldra hótelherbergja hér á landi aftur orðið hærra en þekkist í nágrannalöndunum enda séu horfurnar fyrir næstu mánuði álíka og á sama tíma í fyrra. „Það er örlítil hækkun á landsbyggðinni á milli ára en staðan í Reykjavík er svipuð,“ bætir hann við.

Gengishækkunin hafði mikil áhrif

Að sögn Davíðs Torfa þá fer þeim gestum fjölgandi sem ferðast á eigin vegum en hins vegar er samdráttur í komum evrópskra hópa. „ Einfalda skýringin á því er sú að gengi krónunnar hefur meiri áhrif en almennt hefur verið talið. Við erum að súpa seyðið af mikilli hækkun krónunnar síðastliðið vor sem olli því að Ísland varð of dýrt fyrir hópana sem bóka ferðalög með 9 til 12 mánaða fyrirvara. Einstaklingsmarkaðurinn nýtur góðs af því þar sem núna er meira laust en ella, til dæmis á bókunarsíðunum.“

Útlendingar sem eru að skipuleggja Íslandsferðir í dag hafa ekki aðeins fleiri valkosti þegar kemur að hótelgistingu því verðlagið gæti líka verið hagstæðara enda hefur krónan gefið aðeins eftir. Síðastliðið ár hefur krónan veikst um 12% gagnvart evru og bresku pundi og um 6% í dollurum talið.