Reykvísk hótel betur nýtt en þau skandinavísku

Í apríl voru tæplega 7 af hverjum 10 hótelherbergjum á höfuðborgarsvæðinu skipuð gestum og er það lægra hlutfall en áður. Í samanburði við höfuðborgir nágrannalandanna er nýtingin í Reykjavík þó ennþá mun hærri en gerist og gengur.

Þetta herbergi á Reykjavik Konsulat hótelinu er eitt þeirra sem bæst hefur við á höfuðborgarsvæðinu undanfarin misseri. Mynd: Reykjavik Konsulat Hotel, Curio Collection by Hilton

Gistináttatölur Hagstofunnar fyrir apríl síðastliðinn leiddu í ljós að nýting á hótelherbergjum á höfuðborgarsvæðinu var tæplega 66%. Sérfræðingar Landsbankans gerðu þetta að umtalsefni í Hagsjá sinni í byrjun vikunnar og sögðu að leita þyrfti aftur til apríl 2011 til að finna jafn lága nýtingu. „Það sem af er ári hefur herbergjanýtingin verið verri en á sömu tímapunktum í fyrra,“ sagði jafnframt í greiningu bankans.

Það standa sem sagt fleiri tóm hótelherbergi í Reykjavík í dag en árin á undan en framboðið hefur líka aukist umtalsvert á milli ára eins og sjá má á talnavef Hagstofunnar. Í apríl  ár voru í boði 5.042 hótelherbergi í höfuðborginni sem er 736 herbergjum fleira en í apríl 2016 og jafngildir það aukningu um 17%. Viðbótin frá sama tíma í fyrra nemur 9% eða 432 herbergjum. Aukið framboð er því mögulega helsta skýringin á því að herbergjanýtingin drógst saman en ekki sá samdráttur sam varð í fjölda erlendra ferðamanna í apríl.

Þrátt fyrir fleiri óskipuð herbergi þá er nýtingin á reykvískum hótelum samt sem áður nokkru hærri en í nágrannalöndunum eins og sjá má töflunni hér fyrir neðan. Hagstofur Danmerkur og Noregs birtu gistináttatölur sínar fyrir apríl í morgun og þær leiða í ljós að herbergjanýtingin í höfuðborgum landanna var álíka og hér. Hæst var hún þó í Kaupmannahöfn en fyrstu fjóra mánuði ársins þá er hlutfall seldra hótelherbergja nokkru hærra í Reykjavík en í Skandinavíu.