Þotur WOW sífellt þéttsetnari

Þó áfangastöðunum og flugferðunum fjölgi þá hækkar sætanýtingin hjá WOW air í hverjum mánuði. Sveiflurnar hins vegar í báðar áttir hjá Icelandair og það sama gildir um Norwegian sem er í harðri samkeppni við íslensku félögin í flugi yfir hafið.

wow radir
Mynd: WOW air

9 af hverjum tíu sætum í þotum WOW air í nýliðnum maí voru skipuð farþegum. Það er viðbót um 4 prósentustig frá sama tíma í fyrra en á þessu tímabili jókst framboðið hjá WOW air um ríflega helming samkvæmt því sem kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Þróunin í maí er í takt við síðustu mánuði hjá WOW air því sætanýtingin hjá félaginu vex jafnt og þétt þrátt fyrir að flugáætlun félagsins hafi stóraukist milli ára. Ekki hefur fengist svar við fyrirspurn um hvort þessi góða nýting í maí skrifist á breytt farmiðaverð en í síðasta mánuði hafði Túristi það eftir talsmanni WOW air að meðalfargjöld félagsins hefðu farið hækkandi í ár.

Hjá Icelandair voru um 78% sætanna seld í maí sem er lækkun um nærri fjögur prósentustig frá maí í fyrra. Ekki fást heldur upplýsingar frá Icelandair hvort skrifa megi þessa þróun að hluta til á verðþróunina. Forsvarsmenn Icelandair hafa sagt að félagið taki ekki þátt í verðstríði af fullum þunga til þess eins að halda uppi markaðshlutdeild.

Upplýsingagjöfin hjá Norwegian, einum helsta keppinaut íslensku flugfélaganna í flugi milli Evrópu og N-Ameríku, er mun ítarlegri. Í tölum félagsins fyrir umsvifin í apríl síðastliðnum kom til að mynda fram að meðalfargjaldið hjá félaginu hefði lækkað um 16%. Í maí nam lækkunin 6%.