Út í heim um helgina fyrir minna en 20 þúsund krónur

Það er ekki mikið úrval af hræódýrum ferðum út í heim með stuttum fyrirvara en eitthvað þó.

flug danist soh
Mynd: Danish Soh / Unsplash

Ef þú getur hugsað þér að fljúga til Parísar um miðnætti í kvöld þá er hægt að bóka farmiða þangað með Transavia fyrir um 7900 krónur. Heimferðin í næstu viku mun þó kosta rúmlega tvöfalt meira og þú verður líka að borga fyrir farangurinn. Til Madrídar má komast á morgun fyrir 16 þúsund með Norwegian og farmiði með WOW air til Brussel kostar tæpar 12 þúsund krónur. WOW flýgur líka til Edinborgar á morgun og farið kostar núna rétt um 15 þúsund. Daginn eftir heldur þota easyJet til skosku höfuðborgarinnar og er miðinn er á rúmar 10 þúsund krónur.

Aðfaranótt sunnudagsins er á dagskrá ferð Germania frá Keflavíkurflugvelli til Bremen og ódýrasti farmiðinn er á 10 þúsund krónur. Til Dresden er hægt að fljúga á sama tíma með þessu þýska flugfélagi fyrir 7300 krónur. Á sunnudaginn sjálfan er svo á dagskrá ferð Wizz air til Luton flugvallar við London og sæti í þá brottför fæst á 16 þúsund.

Þetta eru nokkur dæmi um hversu ódýrt er hægt að fljúga út í heim um helgina en ef ferðirnar hér að ofan henta ekki þá má hér sjá hvaða flugfélög fljúga hvert í sumar og í framhaldinu gera verðsamanburð á fargjöldunum sem í boði eru.

Hjá ferðaskrifstofunum eru líka á boðstólum pakkaferðir í sólina með stuttum fyrirvara.