Vika í fyrsta flugið til Rússlands

Rétt fyrir miðnætti á laugardaginn í næstu viku er komið að jómfrúarferð rússneska flugfélagsins S7 milli Íslands og Moskvu.

Zhivopisny brúin í Moskvu. Mynd: Alexander Smagin / Unsplash

Þrátt fyrir fjölmennið í Moskvu og þá staðreynd að Rússar fjölmenna í Íslandsferðir þá hefur áætlunarflug milli Íslands og höfuðborgar Rússalnds aldrei verið í boði. Á því verður hins vegar breyting í næstu viku því rétt fyrir miðnætti laugardaginn 9. júní er á dagskrá fyrsta brottför rússneska flugfélagsins S7 frá Keflavíkurflugvelli. Þotan lendir svo á Domodedovo flugvelli í Moskvu fjórum tímum og 45 mínútum síðar. Þá er klukkan reyndar orðin sjö að morgni þar í borg.

S7 mun aðeins bjóða upp á laugardagsflug héðan í sumar og áætlunin hentar því ekki nógu vel fyrir þá sem ætla að fljúga út til að fylgjast með leik Íslendinga og Argentínumanna í HM þann 16. júní. Fyrir hina leikina gæti þetta flug hentað og það kom reyndar fram á opnum fundi Isavia í vikunni að forsvarsmenn rússneska flugfélagsins séu ánægðir með hversu margir Íslendingar hafa bókað flug í sumar.

Hvað sem því líður er ljóst að ennþá er hægt að komast í jómfrúarflugið næsta laugardagskvöld fyrir frekar lítið. Ódýrasta farið kostar í dag rétt um 23 þúsund krónur.  Hins vegar er miklu dýrara þann 16. júní því þá kostar ódýrasta sætið 145 þúsund og er það á viðskiptafarrými.