Vilja fleiri unga túrista til Frakklands

Frakkland er það land sem tekur á móti flestum erlendum ferðamönnum en yngri kynslóðirnar horfa hins vegar annað þegar þær eru einar á ferðinni. Það á alla vega við um Dani.

Engin þjóð fær til sín jafn marga erlenda gesti og Frakkar gera. Í fyrra lögðu rúmlega 83 milljónir útlendinga leið sína þangað eða 7 milljónum fleiri erlendir ferðamenn en Bandaríkin og Spánn fengu. Þessi þrjú lönd eru í sérflokki á topplistanum yfir vinsælustu ferðamannalöndin.

Það eru hins vegar blikur á lofti um að það gæti farið að draga úr vinsældum Frakklands að mati ferðafrömuða þar í landi. Ástæðan er sú að landið virðist ekki vera eins heillandi í hugum yngri kynslóðanna og þeirra eldri. Í frétt danska ferðaritsins Standby er haft eftir Christine Aby, talsmanni franska ferðamálaráðsins á Norðurlöndum, að margir eldri Danir hafi fyrir löngu tekið ástfóstri við Frakklandi og ferðist þangað endurtekið. Yngra fólkið kýs hins vegar að heimsækja fleiri lönd og bindst því síður tryggðarböndum við einn áfangastað. Öfugt við það sem foreldrarnir hafa gert.

Aby segir það því vera verkefni þeirra sem koma Frakklandi á framfæri í útlöndum að höfða til unga fólksins og meðal annars með því að benda á alla þá möguleika sem finnast í landinu til að fara í svokallaðar hreyfiferðir. Ferðalög sem ganga til dæmis út á fjallgöngur, hjólreiðar og jóga.

Frá Danmörku, Noregi og Svíþjóðar er flogið til fjölda margra franskra borga á meðan framboðið frá Íslandi er bundið við París og Lyon. Reyndar fljúga svo easyJet og Icelandair til Gefnar sem er austur landamærin. Þá er úrvalið upptalið og t.d. ekkert flug frá Keflavíkurflugvelli til vinsælla borga við suðurströndina eins og Marseille, Nice eða Montpellier.