Samfélagsmiðlar

10 spurningar um snúna stöðu Icelandair og WOW sem er ósvarað

Í nýliðinni viku bárust alvarleg tíðindi af bæði Icelandair og WOW air og ljóst að framundan eru krefjandi tímar hjá stjórnendum flugfélaganna tveggja. En hversu slæm er staðan og hvað gerist næst?

icelandair wow

Það kostar mun meira að reka íslenskt flugfélag í dag en fyrir ári síðan. Þotueldsneyti hefur hækkað um helming, styrking krónunnar veldur vandræðum og laun í landinu hafa hækkað. Þessar kostnaðarhækkanir skila sér þó ekki út í verðlagið því fargjöldin eru áfram lág. Þetta er rauði þráðurinn í þeim tilkynningum sem forsvarsfólk Icelandair og WOW air sendi frá sér í síðustu viku og viðurkenndi um leið mismunandi slæma stöðu fyrirtækjanna tveggja sem standa undir bróðurparti flugsamgangna til og frá landinu.

Icelandair reið á vaðið og lækkaði afkomuspá sína umtalsvert í byrjun vikunnar. Lækkunin var það mikil að greinendur Arion banka telja líkur á að fyrirtækið verði gert upp með tapi í ár. Virði hlutabréfa Icelandair lækkaði um fjórðung í kjölfarið. Þessi alvarlegu tíðindi af aðalsamkeppnisaðilunum virðast hafa talið kjark í forsvarsfólk WOW air sem nýtti tækifærið til að láta vita að tapið af rekstri lágfargjaldaflugfélagsins hafi numið rúmum 2,3 milljörðum króna í fyrra.

Þessi slæmu tíðindi af félögunum þurfa þó ekki að koma mjög á óvart. Upphafleg tekjuspá stjórnenda Icelandair byggði til að mynda á því að farmiðaverðið myndi að hækka þónokkuð. Það hefur ekki gengið eftir eins og sjá hefur mátt á þeim lágu fargjöldum sem í boði eru. Samkeppnin er nefnilega ennþá mikil og framboðið á flugsætum yfir Norður-Atlantshafið hefur aukist verulega. Icelandair sjálft hefur til dæmis bætt fimm áfangastöðum í Bandaríkjunum við leiðakerfi sitt í ár. Að hækka verð á sama tíma og farið er í aukna útrás hefur reynst erfitt eins og kannski mátti búast við. Michael O´Leary, forstjóri Ryanair, stærsta lágfargjaldaflugfélags Evrópu, gerir t.a.m. ráð fyrir því að hækkandi olíuverð skili sér ekki út í verðlagið fyrr en á næsta ári.

Fréttirnar af taprekstri WOW air hafa legið í loftinu lengi. Það var nefnilega nokkuð ljóst að hinn mikli dráttur á afkomutilkynningu WOW air, fyrir árið 2017, skrifaðist á neikvæða niðurstöðu. Árin á undan hafði félagið tilkynnt um hagnað strax í febrúar en núna heyrðist ekki neitt fyrr en á föstudaginn þegar í ljós kom að tapið af rekstri WOW nam 2,3 milljörðum í fyrra. Yfirlýsingar fyrrnefnds forstjóra Ryanair hafa hugsanlega dregið úr áhuga stjórnenda WOW air á því að opinbera tapreksturinn fyrr en nú. Írski forstjórinn fullyrti nefnilega í sumarbyrjun að flugfélög sem hefðu verið rekin með tapi árið 2017 myndu ekki lifa af komandi vetur vegna þess hve miklu dýrara þotueldsneytið er í dag en í fyrra.

Hvað sem líður spádómsgáfum írska forstjórans líður þá er ljóst að staða íslensku flugfélaganna er erfið. Og það gæti haft í för með sér neikvæð áhrif á hinum ýmsu sviðum í þjóðfélaginu því eins og Skúli Mogensen, eigandi og forstjóri WOW air, sagði nýverið þá yrði það mikið högg ef reksturs annars flugfélagsins myndi stöðvast.

Á þessum tímapunkti vakna nokkrar spurningar um stöðu íslenskra flugfélaganna sem vonandi fást svör við á næstu dögum og vikum.

  1. Í ljósi þess að ákveðinn hluti af farmiðum er seldur með löngum fyrirvara má spyrja hvort stjórnendur Icelandair hefðu ekki mátt vita fyrr að tekjuspá þeirra fyrir árið myndi ekki ganga eftir. Sáu þeir ekki í hvað stefndi fyrr en núna þegar árið er hálfnað?
  2. Er fjárhagslega staða WOW air tryggð út árið 2019 líkt og félagið tilkynnti um miðjan nóvember? Þá var greint frá sölu flugfélagsins á tveimur Airbus þotum sem félagið endurleigði svo á ný. „Við afhendingu flugvélanna fær WOW air um 4 milljarða króna,” sagði tilkynningunni og því bætt við að með þessum samningi hafi WOW air fullfjármagnað rekstur félagsins út árið 2019.
  3. Hefði tapið hjá WOW air orðið mun hærra ef þessi sala á þotum hefði ekki komið til? Í því samhengi má benda á að forsvarsmenn Norwegian, stærsta flugfélags Norðurlanda, viðurkenna að sárabætur frá birgjum, t.d vegna drátts á afhendingu þotuhreyfla, og hagstæðir gjaldeyrissamningar eru megin ástæða þess að flugfélagið var rekið með hagnaði á öðrum ársfjórðungi þvert á spár greiningaraðila. Flugreksturinn sjálfur er ennþá í járnum.
  4. Icelandair hefur flutt stóran hluta af starfsemi sinni til Íslands í ár, t.d sölustarfsemina. Voru það mistök í ljósi styrkingu krónunnar og hækkandi launa hér á landi?
  5. Sjá íslensku flugfélögin tækifæri í að opna starfsstöðvar út í heimi og færa þangað flugvélar og áhafnir líkt og SAS og Norwegian hafa gert í sparnaðarskyni? Þotur SAS verða brátt mannaðar áhöfnum frá Bretlandi og Spáni og megin ástæðan er lægri launakostnaður í þessum löndum en í Skandinavíku.
  6. Er WOW air ennþá óvarið þegar kemur að kaupum á þotueldsneyti? Í byrjun árs var það staðan líkt og Túristi greindi frá. Icelandair kaupir hins vegar rúmlega helming af sínu eldsneyti fram í tímann. Forstjóri Norwegian viðurkenndi í síðustu viku að það hefðu verið mistök hjá félaginu að gera ekki þess háttar samninga í fyrra. Nú bjóðast nefnilega verri kjör en áður.
  7. Nú er ljóst að WOW air flýgur ekki til Tel Aviv og Miami í vetur. Má gera ráð fyrir niðurskurði á vetraráætlun Icelandair og WOW air? Fullyrða má að sumar flugleiðir skila flugfélögunum litlu og sérstaklega núna þegar olíuverðið hækkar.
  8. Útlán Arion banka til ferðaþjónustunnar hækkuðu um 18 milljarða í fyrra og þar af flokkast 11 milljarðar sem ný lán til samgangna líkt og Túristi greindi frá í vetur. Ekki fást upplýsingar um til hvaða fyrirtækja var lánað. Eru þetta lán til flugfélaganna og hvaða augum líta forsvarsmenn bankans á stöðuna?
  9. Telja ráðherrar ferðamála og samgangna að upplýsingagjöf íslensku flugfélaganna og Isavia sé ásættanleg? Fyrir liggur að hér á landi fást mun takmarkaðri upplýsingar um farþegafjölda en þekkist í löndunum í kringum okkur. Þess má geta að Túristi hefur kært þennan skort á upplýsingum.
  10. Sem fyrr segir var Icelandair rekið með hagnaði í fyrra en það er árið í ár sem er að reynast flugfélaginu mun meira krefjandi. Er það líka staða hjá WOW air og stefnir þá í ennþá meira tap í ár? Og hefur félagið fjárhagslega burði í að hefja flug til Indlands í árslok og um leið bæta 3 breiðþotum við flugflota sinn?
Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …