Áfram eykst nýtingin hjá WOW air

93 prósent allra sæta í flugi WOW air í júní voru skipuð farþegum. Það er töluverð bæting frá sama tíma í fyrra.

wow gma Friðrik Örn Hjaltested
Mynd: Friðrik Örn Hjaltested / WOW air

WOW air flutti 391 þúsund farþega til og frá landinu í júní eða helmingi fleiri farþega en í júní í fyrra. Þá var sætanýtingin 86,4 prósent en fór núna upp í 93 prósent. Á sama tíma jókst framboð félagsins um  44 prósent samkvæmt því sem segir í tilkynningu. Þar kemur jafnframt fram að hlutfall tengifarþega hafi stóraukist og farið upp í 58 prósent. Vægi þessa farþegahóps var 44 prósent á sama tíma í fyrra.

Það sem af er ári þá hefur WOW air flutt um 1,6 milljón farþega. „Það er frábært að sjá hversu vel okkur gengur að fylla vélarnar okkar þrátt fyrir um 30% vöxt á milli ára sem af er ári og sjö nýja áfangastaði,“ segir Skúli Mogensen, stofnandi og forstjóri WOW air, í tilkynningu.

Samkvæmt farþegatölum Icelandair fyrir júní þá nýttu um 480 þúsund farþegar sé áætlunarflug félagsins þann mánuðinn og sætanýtingin var 84,4% sem er ögn lægra hlutfall en í júní í fyrra. Hvorki Icelandair né WOW air gefa upplýsingar um þróun meðalfargjalda öfugt við það sem norrænu flugfélögin SAS og Norwegian gera. Hjá því síðarnefnda, sem á í mikilli samkeppni við íslensku flugfélögin í farþegaflutningum yfir Atlantshafið, hefur farmiðaverðið lækkað síðustu þrjá mánuði.