Eðlilegt að ræða betri upplýsingjagjöf

Ráðherra ferðamála telur umhugsunarvert að meiri upplýsingar skuli vera veittar í ýmsum öðrum löndum um flugumferð en þekkist hér á landi.

Mynd: Stjórnarráðið

Einu opinberu upplýsingarnar sem til eru um flugumferð til og frá Keflavíkurflugvelli, eftir flugfélögum og flugleiðum, eru samantektir Túrista sem birtar hafa verið mánaðarleg allt frá árinu 2011. Þær upplýsingar ná þó aðeins yfir fjölda brottfara en ekki fjölda farþega. Á þeim upplýsingum situr Isavia á meðan flugmálayfirvöld í mörgum öðrum löndum, t.d. Bandaríkjunum, Bretlandi og Danmörku birta þær mánaðarlega.

Það heftur líka staðið á upplýsingagjöf frá WOW air. Þannig hafa litlar upplýsingar fengist um stöðu flugfélagsins en það stendur undir um þriðjungi af flugumferðinni til og frá Keflavíkurflugvelli. Þar til í lok síðustu viku hafði flugfélagið til að mynda ekki gefið út hver afkoman var í fyrra. Niðurstaðan var 2,3 milljarða tap.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, segir í svari til Túrista, að hún telji að sú almenna regla ætti að gilda í þessu sem öðru að veita eins miklar upplýsingar og hægt er að teknu tilliti til réttmætra hagsmuna þeirra sem hlut eiga að máli. „Þess ber þó að gæta að strangar reglur gilda um upplýsingagjöf fyrirtækja á markaði enda geta þær haft mikil áhrif á verðmæti hlutabréfa fyrtækjanna. Svipuð sjónarmið geta gilt um óskráð félög. Mér finnst umhugsunarvert að meiri upplýsingar skuli vera veittar í ýmsum öðrum löndum og það gæti verið vísbending um að við ættum að endurskoða okkar nálgun. Hugsanlega eru að einhverju leyti eðlilegar skýringar á þessu en ég hallast að því að við getum gert betur í upplýsingagjöf en við gerum í dag og ég tel eðlilegt að ræða það. Eins og til dæmis hvort unnt sé að birta mánaðarlega tölur um fjölda farþega á milli Íslands og hvers og eins flugvallar, eins og er gert í Bretlandi.“

Þess ber að geta að í sumarbyrjun kærði Túristi upplýsingagjöf Isavia til úrskurðarnefndar upplýsingamála og beðið er niðurstöðu í því máli.

Aðspurð um álit sitt á versnandi afkomu Icelandair og tapreksturs WOW air þá bendir Þórdís Kolbrún á að flugmál eru á forræði samgönguráðherra og að eftirlit með fjárhagsstöðu flugrekenda á hendi Samgöngustofu. Þórdís Kolbrún segir að hún hafi ekki vitað af taprekstri WOW air í fyrra fyrr en hún las það í fréttum.