Ekkert vetrarflug til Moskvu

Í sumar er í fyrsta skipti flogið beint hingað frá höfuðborg Rússlands. Eftirspurn eftir sætum í ferðirnar hefur verið mikil en þrátt fyrir það verða engar ferðir á dagskrá í vetur.

Þota S7. Mynd: S7

Í byrjun júní fór rússneska flugfélagið S7 jómfrúarferð sína til Íslands og mun félagið bjóða upp á vikulegar ferðir milli Íslands og Domodedovo flugvallar við Moskvu í allt sumar. Aldrei áður hafa farþegar hér á landi geta flogið beint til Moskvu og reyndar hafa áætlunarferðir milli Íslands og Rússlands verið fátíðar. Þannig flaug Icelandair til Sankti Pétursborgar yfir sumarmánuðina árin 2013 og 2014 og voru það fyrstu reglulegu flugin milli landanna tveggja.

Nú eru beinar flugsamgöngur milli landanna tveggja komnar í gang á ný og að sögn Nadja Goreva, talskonu S7, hafa viðtökurnar við nýju flugleiðinni verið góðar. „Það er mjög mikil eftirspurn eftir flugi milli Moskvu og Reykjavíkur líkt og við höfðum gert ráð fyrir. Við reiknum ekki með að farþegum fækki í júlí og ágúst í samanburði við júní“. En gera má ráð fyrir að fjöldi Íslendinga hafi nýtt sér ferðirnar í júní í tengslum við ferðir á HM í Rússlandi.

Aðspurð um hvort til standa að halda fluginu áfram í vetur þá segir Goreva að ekki sé gert ráð fyrir Íslandsflugi hjá S7 yfir vetrarmánuðina.