Ekki alltaf pláss fyrir handfarangurinn

Í júní síðastliðnum var ekkert erlent flugfélag eins umsvifamikið á Keflavíkurflugvelli og Wizz air. Forsvarsmenn flugfélagsins vara farþegana við því að það sé engin trygging fyrir því að allur handfarangurinn komist fyrir í farþegarýminu.

Flugfreyjur Wizz air gætu þurft senda handfarangur farþega niður í töskugeymsluna vegna plássleysis. Mynd: Wizz air

Það má gera ráð fyrir að hundruðir Íslendinga nýti sér áætlunarferðir Wizz air í hverjum mánuði enda býður félagið upp á reglulegt flug héðan til 10 áfangastaða. Í nýliðnum júní flugu þotur þessa ungverska lággjaldaflugfélags að jafnaði fjórar ferðir á dag frá Íslandi og ekkert annað erlent flugfélag var eins stórtækt í Íslandsflugi þann mánuðinn.

Úttektir Túrista hafa sýnt að farmiðaverðið hjá Wizz air er oft mjög lágt en á móti kemur sú staðreynd að flugfélagið rukkar aukalega fyrir alla aðra þjónustu. Og þar til nýverið þurfti líka að borga fyrir handfarangur sem ekki kemst undir sætið fyrir framan farþegann. Sú gjaldheimta var lögð af í fyrra en það hefur orðið til þess að sífellt fleiri taka með sér stærri töskur um borð. Því hafa forsvarsmenn Wizz air gefið út að ekki sé hægt að tryggja að allur handfarangur fái að vera í farþegarýminu. Aðeins farþegar sem borga sérstaklega fyrir að fara fyrst um borð eru öryggir með að fá að hafa farangurinn sinn hjá sér en þess háttar kostar 10 evrur eða um 1300 krónur. Þeir sem ekki borga þetta aukagjald eiga það á hættu að töskurnar þeirra verði settar niður í farangursgeymsluna en þó án greiðslu.

Töskur sem eru minni en 40 x 30 x 18 cm og eru settar undir sætið fyrir framan farþegann fá áfram að vera í farþegarýminu.