Ferðamálastofa vill athugun á starfsemi Booking.com

Íslenskum hótelum og gististöðum er ekki heimilt að bjóða upp á betra verð en það sem birtist á Booking.com að mati Ferðamálastofu sem óskar eftir athugun Samkeppniseftirlitsins.

Mynd: Booking.com

Ferðamálastofa hefur sent ábendingu til Samkeppniseftirlitsins um starfsemi bókunarsíðunnar booking.com. Telur Ferðamálastofa álitamál hvort skilmálar fyrirtækisins standist samkeppnislög þar sem þeir feli mögulega í sér íþyngjandi skilyrði fyrir viðskiptavini þess og hindri þar með eðlilega samkeppni. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu Ferðamálastofu. Þar segir jafnframt að margt bendi til að markaðshlutdeild booking.com hafi náð yfir 50 prósent á umræddum markaði og á þeirri forsendu er líklegt að fyrirtækið teljist hafa markaðsráðandi stöðu hérlendis.

Skilmálar bókunarsíðunnar víða umdeildir

Ferðamálastofa hefur því beint til Samkeppniseftirlitsins að það taki til skoðunar skilmála Booking.com um svokallaða bestukjarameðferð. „Í skilmálunum felst að viðskiptavinum fyrirtækisins, til að mynda íslenskum hótelum og gististöðum er ekki heimilt að bjóða upp á betra verð en sem fram kemur á bókunarsíðum Booking.com. Komi slík staða upp verður söluaðili gistingar annað hvort að bjóða ferðamanni að borga lægra verðið eða greiða honum mismuninn, hafi hann borgað hærra verðið. Gildir einu hvort hið lægra verð kemur fram á vefsíðu þess gististaðar, sem í hlut á, eða hjá samkeppnisaðilum booking.com,“ segir í tilkynningunni.

5 milljarða söluþóknun í Íslandi

Að mati Ferðamálastofu þá inniheimtir Booking.com umtalsvert háa þóknun af þjónustu sinni og nemur hún að lágmarki 15% af heildarkostnaði gistingar. „Því má áætla að söluþóknun fyrirtækisins vegna sölu gistingar á Íslandi nemi að minnsta kosti fimm milljörðum króna á ári. Samkeppnisyfirvöld víða í Evrópu hafa gert athugasemdir við starfsemi og þar með skilmála fyrirtækisins, þar með talið vegna umræddrar bestukjarameðferðar, sem hefur í kjölfarið víða verið breytt. Hinir umdeildu skilmálar koma þó enn fram í þjónustusamningum fyrirtækisins við íslenskra ferðaþjónustuaðila.“