Ferðamannaspáin gekk ekki eftir í júní

Þvert á spár þá fjölgaði þeim útlendingum sem innrituðu sig í flug frá Keflavíkurflugvelli í síðasta mánuði. Sem fyrr eru farþegar frá Bandaríkjunum langfjölmennastir.

Fleiri ferðamenn komu til landsin í júní öfugt við það sem áætlanir gerðu ráð fyrir. Mynd: Iceland.is

Um 234 þúsund erlendir farþegar flugu frá Keflavíkurflugvelli í júní sem er aukning um 5 af hundraði miðað við sama tíma í fyrra. Þessi talning hefur lengi verið nýtt til að meta fjölda erlendra ferðamanna á Íslandi. Athygli vekur að þessi jákvæða þróun er þvert á niðurstöður farþegaspár Isavia sem kynnt var í lok maí. Samkvæmt henni var búist við samdrætti í brottförum erlendra ferðamanna upp á 3,2 prósent og þeir yrðu 214 þúsund í heildina.

Raunin var hins vegar önnur þrátt fyrir að spá Isavia hafi byggt á upplýsingum frá íslensku flugfélögunum. Forsvarsmenn þeirra gerðu ráð fyrir að hlutfall skiptifarþega yrði hærra en raunin virðist hafa orðið.

Það er hins vegar greinilegt að það eru Bandaríkjamenn sem bera uppi aukninguna því þeim fjölgaði um nærri 20 þúsund í júní en í heildina nam viðbótin um 12 þúsund útlendingum. Vegur það upp á móti þeirri staðreynd að ferðafólki frá kjarnamörkuðum eins og Þýskalandi, Frakklandi, Kanada, Danmörku og Bretlandi fækkaði umtalsvert.