Flestir alþjóðlegir fundir haldnir á Íslandi

Miðað við höfðatölu þá nýtur Ísland mikilla vinsælda hjá þeim sem skipuleggja ráðstefnur og fundarhöld.

Ráðstefnuhald í Hörpu er m.a. til umfjöllunar í nýjasta tölublaði Meetings International. Mynd: Ráðstefnuborgin Reykjavík

Höfðatalan reynist Íslendingum oft vel í samanburði við aðrar þjóðir. Nýjasta dæmið um slíkt er niðurstaða úttektar tímaritsins Meetings International sem leiðir í ljós að Ísland er það land í heiminum þar sem haldnir eru flestir alþjóðlegir fundir og ráðstefnur. Tímaritið studdist við gögn frá alþjóðlegum samtökum þjónustuaðila í funda- og viðskiptaferðamennsku og samkvæmt þeim er Ísland í 55. sæti yfir flesta alþjóðlega fundi haldna í heiminum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ráðstefnuborginni Reykjavík, Meet in Reykjavík.

Þar segir jafnframt að Bandaríkin séu með afgerandi forrystu í fyrsta sæti listans en þar á eftir koma Þýskaland, Bretland og Frakkland. Norðurlöndin koma vel út í þessum samanburði og samkvæmt útreikningunum er mikil gróska í viðskiptaferðamennsku í Finnlandi, Danmörku, Noregi, Svíþjóð og á Íslandi. Væru þessi lönd talin sem eitt væri þau í öðru sæti á eftir Bandaríkjunum.

Eins og fyrr segir er Ísland í fyrsta sæti miðað við höfðatölu með einn alþjóðlegan viðburð fyrir hverja 8.500 íbúa. Malta, Slóvenía, Finnland og Danmörk eru svo í næstu sætum á eftir.

Í nýjasta tölublaði Meetings International er jafnframt ítarleg umfjöllun um Reykjavík sem áfangastað fyrir alþjóðlega fundi. Þar er fjallað um valið á höfuðborginni sem bestu funda-, ráðstefnu- og hvataferðaborg Evrópu ársins 2017. Eins er fjallð um hvernig opnun Hörpu ásamt aukningu í flugi til og frá landinu hafi gert áfangastaðinn mjög aðlaðandi fyrir alþjóðlega funda- og ráðstefnuskipuleggjendur.

Nýr samstarfssamningur Ráðstefnuborgarinnar Reykjavíkur (Meet in Reykjavík) og Háskólanna í borginni um að fjölga alþjóðlegum akademískum fundum og ráðstefnum á vegum háskólanna er einnig til umfjöllunar sem og starfsemi svokallaðs Ambassador-klúbbs Ráðstefnuborgarinnar Reykjavíkur.  Klúbburinn er hugsaður sem samstarf hagsmunaaðila í viðskiptaferðaþjónustu, Reykjavíkurborgar og fræði- og athafnafólks sem hefur tengsl inn í alþjóðleg samtök og stofnanir. Samkvæmt Meet in Reykjavík hafa meðlimir klúbbsins skilað um 110 verkefnum til landsins á þeim fjórum árum sem hann hefur verið starfandi og fer verkefnunum ört fjölgandi.