Heimagisting í sókn á landsbyggðinni

Fyrstu fimm mánuði ársins fækkaði gistinóttum í óskráðri gistingu um 11 þúsund í Reykjavík. Hins vegar fjölgaði nóttunum í öðrum landshlutum um 54 þúsund.

Frá Seyðisfirði. Á Austurlandi hefur hlutfallslega orðið mest aukning í sölu á heimagistingu í ár. Mynd: Sveinn Birkir Björnsson / Unsplash

Samanlögð umsvif gistimiðlananna Airbnb og Homeaway jukust hér á landi um 8 prósent á tímabilinu janúar til maí í ár samkvæmt mati Hagstofunnar á gistinóttum utan hefðbundinnar talningar. Hagstofan birtir nú mánaðarlega áætlun sína á svokallaðri óskráði gistingu og þegar tölurnar fyrir fyrstu fimm mánuði ársins eru greindar eftir landshlutum kemur í ljós að þróunin hefur verið mjög ólík milli höfuðborgar og landsbyggðar.

Í Reykjavík og nágrenni fækkaði nefnilega gistinóttunum í seldri heimagistingu um 3 þrjú prósent en þeim fjölgaði umtalsvert á landsbyggðinni. Hlutfallslega var aukningin mest á Austurlandi þar sem hún nam um 57 prósentum og viðbótin var aðeins minni á Vesturlandi og Vestfjörðum.

Á sama tímabili fækkaði hótelnóttum á Austurlandi um 3% en fjölgaði um 12% á Vesturlandi og Vestfjörðum. Ekki er hægt að greina umsvifin í óskráðu gistingunni eftir þjóðernum á vef Hagstofunnar en á Mælaborði ferðaþjónustunnar má sjá að fimmti hver ferðamaður frá Norður-Ameríku segist gista í heimagistingu sem greitt er fyrir. Hlutfallið er lægri hjá ferðamönnum frá öðrum heimshlutum.

Hafa ber í huga að þó heimagistingin sé flokkuð sem óskráð þá er hluti hennar engu að síður með leyfi. Hlutfallið er þó líklega ekki hátt því gistikostir á vegum Airbnb munu vera um 5 þúsund hér á landi en útgefin leyfi aðeins 1.330 í dag.