Helmingurinn tekur æfingafötin með í fríið

Ef Íslendingar eru líkir Dönum þá eru íþróttaföt ofan í meirihluta þeirra ferðataska sem innritaðar eru á Keflavíkurflugvelli.

Mynd: Bradley Wentzel / Unsplash

Að liggja flatmaga á sólarströnd er oft hluti af ferðalaginu á suðrænar slóðir en nú á dögum vilja margir einnig nýta ferðina í að hreyfa sig reglulega. Bæði til að missa ekki niður formið en líka til að geta leyft sér ögn meiri mat og drykk í ferðalaginu. Þetta sýna niðurstöður danskrar könnunar þar sem Danir voru spurðir hvort þeir stundi líkamsrækt þegar þeir fara í sólarstrandaferð. 51 prósent svarenda segjast taka með sér æfingagalla í fríið en reyndar fylgir ekki söguna hversu duglegt fólk er að hreyfa sig þegar á hólminn er komið.

Hvað sem fjölda æfinga líður þá koma niðurstöður könnunarinnar dönskum líkamsræktarfrömuði ekki á óvart. Haft er eftir honum í Berlingske að skýringin á þessu sé sú að hreyfing er í tísku í dag. Fólk fer líka orðið gagngert til útlanda til að stunda líkamsrækt, t.d. í hlaupa- og hjólaferðir eða til að stunda jóga eða fjallgöngur. Úrvalið af þess háttar reisum er líka orðið miklu meira hjá íslenskum ferðaskrifstofum í dag en fyrir nokkrum árum síðan.

Það er því ekki ólíklegt að Íslendingar pakki líka niður fötum sem þægilegt er að hreyfa sig í og nýti baðfötin í meira en bara til að skýla sér á ströndinni eða við sundlaugarbakkann.