Hlutdeild íslensku flugfélaganna breyttist ekki

Icelandair og WOW air stóðu sameiginlega fyrir um 77 prósent allra áætlunarferða til og frá Keflavíkurflugvelli í síðasta mánuði. Hlutfallið var það sama í júní í fyrra en innbyrðis vægi félaganna tveggja breyttist milli tímabila.

Myndir: Isavia, Icelandair og WOW air

Það voru 25 flugfélög sem buðu upp á áætlunarferðir frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar í júní sem er viðbót um eitt flugfélag frá sama tíma í fyrra. Þá stóðu Icelandair og WOW air samanlagt fyrir 77 prósent allra brottfara og staðan var óbreytt í nýliðnum júní samkvæmt talningum Túrista. Vægi Icelandair fór hins vegar úr rúmum 52 prósentum í tæp 45 prósent. WOW hækkaði sína hlutdeild úr fjórðungi upp í rúm 32 prósent eins og sjá á súluritinu hér fyrir neðan.

Af erlendu flugfélögunum þá var Wizz Air umsvifamest með um fjórar af hverjum 100 ferðum en eins og sjá má á töflunni þá eru útlendu félögin, hvert fyrir sig, með mjög lítinn hluta af millilandafluginu til og frá Íslandi. Hafa ber í huga að í þessum talningum Túrista er aðeins litið til brottfara í áætlunarflugi.