Íslenskum farþegum Icelandair fjölgar

Níu þúsund færri nýttu sér áætlunarferðir Icelandair í júní og skrifast það á erlendu markaðina en ekki þann íslenska.

Ein af nýju Boeing MAX þotum Icelandair. Mynd: Icelandair

Hlutfall þeirra farþega Icelandair sem hefja ferðalagið á Íslandi hefur síðustu ár farið hratt lækkandi. Það var hins vegar ekki raunin í nýliðnum júní því þá jókst fjöldi farþega Icelandair frá heimamarkaðnum töluvert milli ára samkvæmt því sem fram kemur í kauphallartilkynningu félagsins.

Í heildina fækkaði þó farþegum Icelandair um 9 þúsund í júní sem nemur samdrætti upp á 2 prósent. Skrifast það á færri farþega frá útlöndum, bæði erlenda ferðamenn á leið til Íslands og líka færri farþega á leið milli N-Ameríku og Evrópu. Framboð Icelandair í flugsætum talið dróst saman um 4 prósent í júní og sætanýtingin var 84,4 prósent. Hún var 1,3 prósentustigum hærri í júní í fyrra.

Farþegar Air Iceland Connect voru um 29 þúsund í síðasta mánuði og fækkaði um 13 prósent á milli ára. Skýringin á því er sú, samkvæmt tilkynningu, að um miðjan maí í ár hætti félagið flugi til Belfast og Aberdeen og einnig á milli Keflavíkur og Akureyrar. Flugfélagið tekur þá flugleið upp á ný í haust.

Framboðnar gistinætur hjá hótelum Icelandair Group jukust um 2% á milli ára. Herbergjanýting var 79,6% samanborið við 80,0% í júní 2017. Hótelrekstur Icelandair Group er til sölu eins og áður hefur komið fram.