Jómfrúarferðin til Dusseldorf bíður til vorsins

Upphaflega stóð til að þýska borgin bættist við leiðakerfi Icelandair nú í haust. Úr því verður hins vegar ekki.

Frá Dusseldorf. Mynd: Ferðamálaráð Dusseldorf

Gjaldþrot Airberlin var reiðarhögg fyrir íbúa Dusseldorf því borgin var annað af höfuðvígum þýska flugfélagsins. Hitt var höfuðborgin sjálf sem flugfélagið var kennt við. Auk áætlunarferða um alla Evrópu þá bauð Airberlin upp á Bandaríkjaflug frá Dusseldorf og sat nærri eitt að þeim markaði.

Stjórnendur Icelandair voru snöggir til þegar kynnt var um greiðslustöðvun Airberlin sl. sumar og hófu sölu á flugi til Tegel flugvallar í Berlín nokkrum dögum síðar. Ætlunin var svo að fylla skarð Airberlin í Dusseldorf líka og var fyrsta ferð á dagskrá nú í lok október.  Þegar þessi nýja flugleið var kynnt sagði Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair, að eftir brotthvarf Airberlin af markaðinum milli Þýskalands og Bandaríkjanna hafi opnast ný tækifæri fyrir tengiflug Icelandair milli Dusseldorf og áfangastaða Icelandair í Norður-Ameríku.

Engu að síður hefur jómfrúarferði Icelandair til þýsku borgarinnar nú verið frestað 11. apríl á næsta ári. Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair þá verður ferðum félagsins til Parísar, Amsterdam og Berlínar fjölgað í staðinn.