Keflavíkurflugvöllur áfram hástökkvari

Það fóru rúmlega fjórðungi fleiri farþegar um Keflavíkurflugvöll í maí og það er meiri vöxtur en aðrar álíka stórar evrópskar flughafnir geta státað af.

Mynd: Isavia

Flugfarþegum innan Evrópu fjölgaði um sex af hundraði í maí síðastliðnum og mestur var vöxturinn í þeim löndum álfunnar sem eru ekki hluti af Evrópusambandinu. Til að mynda í Georgíu, Svartfjallalandi og Úkraínu auk hér á landi samkvæmt samantekt ACI Europe, samtaka evrópskra flughafna.

Hægari vöxtur í Evrópusambandslöndunum skýrist að hluta til af verkföllum, óhagstæðum veðurskilyrðum og gjaldþrotum flugfélaganna Monarch og Airberlin að því sem fram kemur í úttekt ACI.  Það munu helst vera flugvellir í suður- og austurhluta Evrópu sem vaxa hraðast auk Finnlands og Lúxemburg.

Evrópskum flughöfnum er skipt upp í nokkra stærðarflokka hjá ACI og það er skemmst frá því að segja að Keflavíkurflugvöllur eru í toppsætinu í sínum flokki eins og sjá má.

Farþegaaukning í maí á flughöfnum með 5 til 10 milljónir farþega:

  1. Keflavíkurflugvöllur (+26.5%)
  2. Seville (+26.1%)
  3. Rhodes (+20.8%)
  4. Riga (+20.4%)
  5. Þessalóníka (+18.2%)