Mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna að rekstur íslensku flugfélaganna gangi vel

Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir að erlend flugfélög myndu ekki sinna farþegaflutningum til og frá landinu með sama hætti og þau íslensku gera.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Mynd: SAF

„Það er því að sjálfsögðu áhyggjuefni fyrir ferðaþjónustuna í heild ef rekstur íslensku flugfélaganna gengur illa þar sem þau standa undir svo stórum hluta farþegaflutninga til landsins sem raun ber vitni,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, aðspurður um þá stöðu sem komin er upp í íslenskum flugrekstri.

Í síðustu viku bárust fréttir af versnandi afkomu Icelandair og forsvarsmenn WOW air gáfu út að flugfélagið hafi verið rekið með rúmlega 2,3 milljarða tapi í fyrra. Túristi hefur ekki fengið svör við þeirri spurningu hvort afkoma þessa árs verði betri eða verri. Það er hins vegar staðreynd að rekstur flugfélaga gengur almennt verr í ár og þar vegur þungt hið ört hækkandi olíuverð.

Þó flugfélögunum á Keflavíkurflugvelli hafi farið fjölgandi síðustu ár þá standa Icelandair og WOW air undir nærri 8 af hverjum 10 áætlunarferðum frá landinu. Jóhannes segir það mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna að íslensk flugfélög séu sterk á markaðnum því það er ljóst að erlend flugfélög nálgast farþegaflutninga til Íslands út frá öðrum forsendum. „Erlend flugfélög myndu væntanlega aldrei stíga inn í sams konar fyrirkomulag með Keflavíkurflugvöll sem starfsstöð, ef illa færi. Því er mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna að rekstur íslensku félaganna gangi vel,“ bætir hann við.

Á meðan flugmálayfirvöld í nágrannalöndunum birta mörg hver mánaðarlegar upplýsingar um þróun í farþegaflugi eftir flugleiðum og jafnvel flugfélögum þá eru þessar upplýsingar ekki opinberar hér á landi. Túristi hefur kært þessa stefnu Isavia til úrskurðarnefndar upplýsingamála. Aðspurður um hvort Samtök ferðaþjónustunanr telji upplýsingagjöf flugfélaganna og flugmálayfirvalda nægjanlega góða þá segir Jóhannes að það sé almennt séð betra að hafa meiri upplýsingar en minni. „Það má í þessu sambandi ítreka það sem SAF og fleiri hafa bent á að allt of lítil áhersla er lögð á upplýsingaöflun og rannsóknir tengdar ferðaþjónustu í dag.“

TENGDAR GREINAR: 10 spurningar sem er ósvarað um snúna stöðu íslensku flugfélaganna