Ódýrari farmiðar og minni hagnaður

Spár stjórnenda Icelandair gerðu ráð fyrir hækkandi fargjöldum. Þær áætlanir hafa ekki gengið eftir og það er ein helsta ástæða þess að flugfélagið hefur lækkað afkomuspá sína fyrir árið.

Mynd: Icelandair

Þeir sem hafa keypt sér flugmiða með Icelandair á næstunni hafa að jafnaði borgað minna fyrir sætin en stjórnendur flugfélagsins höfðu áætlað. „Sú þróun meðalverða sem við gerðum ráð fyrir á síðari hluta ársins virðist ekki vera að ganga eftir og því lækkum við tekjuspá félagsins. Verðþróun á mikilvægum áfangastöðum hefur ekki verið eins og áætlanir okkar gerðu ráð fyrir og það hefur neikvæð áhrif á rekstrarspá,“ segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair, í tilkynningu fyrirtækið sendi frá sér í gærkvöld.

Tilefni tilkynningarinnar er lækkun á afkomuspá Icelandair Group um 30 prósent. Skrifast það meðal annars á fyrrnefnda verðþróun og á það rask sem hefur átt sér stað í flugáætlun félagsins sem hefur haft í för með sér hækkandi kostnað og minni tekjur. Hækkandi olíuverð vegur líka þungt en þotueldsneyti er helmingi dýrara í dag en það var fyrir ári síðan. Af þeim sökum sjá til að mynda forsvarsmenn Norwegian, stærsta flugfélags Norðurlanda, fram á hækkandi farmiðaverð því kaup á eldsneyti vega þungt í rekstri flugfélaga.

Óljóst hver verðþróunin er

Ennþá lækka þó flugmiðarnir í verði og fór meðalfargjaldið hjá Norwegian niður um 4 prósent í júní. Þetta var þriðji mánuðurinn í röð sem farmiðaverð flugfélagsins fer lækkandi en Norwegian er stórtækt í flugi milli Evrópu og Norður-Ameríku á sama hátt og Icelandair og WOW air. Íslensku flugfélögin tvö gefa ekki eins greinargóðar upplýsingar um þróun fargjalda hjá sér og Norwegian gerir en það er ljóst að farmiðarnir hjá Icelandair hafa ekki hækkað í takt við væntingar stjórnenda flugfélagsins. Hver staðan er hjá WOW air er ekki vitað en í maí hafði Túristi það eftir talsmanni félagsins að fargjöld félagsins hefðu farið hækkandi á fyrsta fjórðungi ársins.

Versnandi staða í ferðaþjónustu

Flugrekstur stendur undir bróðurparti starfsemi Icelandair Group en fyrirtækið á einnig ferðaskrifstofuna Iceland Travel sem er stórtæk í sölu og skipulagningu Íslandsferða. Í fyrrnefndri tilkynningu er haft eftir Björgólfi forstjóra að horfur hafa farið versnandi í íslenska ferðaþjónustuhlutanum og að hafi áhrif á Iceland Travel. Icelandair á einnig næst stærstu hótelkeðju landsins en hún er nú til sölu.

Til lengri tíma metur forsvarsfólk Icelandair Group horfurnar í rekstrinu góðar samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu, félagið sé fjárhagslega sterkt og með góða markaðsstöðu.“