Ódýrari rútumiðar til og frá Keflavíkurflugvelli

Stjórnendur Gray Line hafa dregið tilbaka hluta af verðhækkuninni í sætaferðir fyrirtækisins til Keflavíkurflugvallar. Ástæðan er úrskurður Samkeppniseftirlitsins vegna bílastæðagjalda Isavia.

airportexpress
Mynd:Gray Line

Undanfarið ár hefur staðið styr um bílastæðagjöld Isavia fyrir hópferðabíla við Leifsstöð. Málið hófst með útboði Isavia á aðstöðu fyrir sætaferðir til og frá flugstöðinni sem haldið var júlí í fyrra. Þar buðu Kynnisferðir og Hópbílar hæst og fengu séraðgang að stæðunum næst komusalnum. Byrjað var að keyra samkvæmt niðurstöðum útboðsins þann 1. mars síðastliðinn og um leið voru sett á bílastæðagjöld á rútustæðunum sem eru þar skammt frá.

Upphaflega var ætlunin að rukka 19.900 krónur fyrir hverja rútu sem þar lagði en veittur var aðlögunartími og gjaldið lækkað tímabundið út þetta sumar. Forsvarsmenn Gray Line, sem hafa um árabil boðið upp á sætaferðir til Keflavíkurflugvallar, kærðu verðlagninguna. Nú hefur Samkeppnisstofnun kveðið upp bráðabirgðaúrskurð í málinu og var gjaldtaka Isavia stöðvuð í framhaldinu.

Sú niðurstaða mun vera ástæða þess að Gray Line lækkar á ný farmiðaverðið í sætaferðir sínar í tengslum við millilandaflug en hópferðabílar fyrirtækisins halda til á rútustæðinu sem er við einkabílastæðin við komusal Leifsstöðvar. „Eftir langa bið eftir úrskurði Samkeppnisstofnunnar um bílastæðagjöld á Keflavíkurflugvelli og vegna annarra hækkana á rekstrarkostnaði tilkynnti Gray Line í júní sl. 400 kr. hækkun á áætlunarferðum Airport Express til og frá Keflavikurflugvelli. Með bráðabirgðaúrskurði Samkeppniseftirlitsins 17. júlí þar var gjaldtaka Isavia á fjarstæðunum stöðvuð tímabundið, sem fyrir vikið gerir okkur kleift að draga helming þessarar hækkunar til baka,“ segir í tilkynningu Gray Line til söluaðila.

Eftir þessar verðbreytingar kosta ódýrustu farmiðarnir með Gray Line/Airport Express 2.300 krónur en í þær ferðir sem eru í tengslum við flug á háannatíma þá er gjaldið 2.500 kr. Hjá Hópbílum/Airport Direct kosta ódýrustu brottfarirnar 2.390 krónur það á aðeins við um ferðir á minna nýtum tímum. Hefðbundið fargjald hjá fyrirtækinu er 2.900 og hjá Flugrútu Kynnisferða er gjaldið 2.950 krónur. Eins og sjá má á verðsamanburði Túrista þá borgar sig að kaupa farmiða báðar leiðir hjá fyrirtækjunum þremur. Fyrir síðustu verðbreytingar hjá Gray Line þá kostaði rútumiði, báðar leiðir, með Airport Express 3.900 kr. Hann hækkaði svo en hefur nú lækkað að hluta tilbaka.