Önnur skíðavertíðin í Whistler framundan

Síðastliðinn vetur var í fyrsta sinn flogið beint héðan til Vancouver í Kanada. Það tækifæri nýttu GB ferðir til að bjóða upp á skíðareisur á ólympíusvæðið við Whistler.

Jóhann Pétur Guðjónsson hjá GB ferðum sem bjóða meðal annars upp á skíðaferðir til Whistler.

Jóhann Pétur Guðjónsson hjá GB ferðum segist fyllast einstakri frelsistilfinningu þegar hann skíðar niður brekkurnar í kanadísku fjöllunum við Whistler. Túristi lagði fyrir hann nokkrar spurningar um komandi vetrarvertíð en ferðaskrifstofan er með úrval af pakkaferðum fyrir skíðafólk.

Eru margir farnir að huga að skíðaferðum vetursins þrátt fyrir hið slæma sumarveður víða um land?
Já, salan á skíðaferðum fer vanalega af stað í byrjun júní. Í júlí er rólegra að gera í sölu skíðaferða en strax eftir verslunarmannahelgi fer allt á fullt, enda flestir að koma til vinnu eftir sumarfrí. Salan hefur svo verið stöðug út árið.

Þið hafið sérhæft ykkur í ferðum til Colorado og nú Whistler í Kanada en þið seljið líka ferðir til Austurríkis. Hver er stóri munurinn á því að fara í skíðaferð til Kitzbühel í Austurríki og svo Whistler?
Við höfum selt ferðir til Colorado og Austurríkis í 14 ár og erum sífellt að bæta við úrvalið. Whistler/Blackcomb í Kanada bættist við hjá okkur síðasta vetur og erum við að fara inn í annað árið okkar þar. Helsti munurinn á Kitzbühel og Whistler er stærð skíðasvæðanna. Whistler er miklu miklu stærra. Ferðalagið til Whistler er lengra en það er vel þess virði þegar komið er á staðinn. Einnig snjóar meira í Whistler þar eru „off piste“ svæðin miklu stærri. Það sem er frábært við þau svæði í Whistler er að þau eru öll innan seilingar við lyfturnar og það þarf ekki að erfiða með skíðin á bakinu til að komast í þá dýrð.

Hversu langri dvöl mælir þú með fyrir þá sem fara til Norður-Ameríku í skíðafrí?
Ég mæli með að fólk fari ekki til Norður Ameríku fyrir minna en 8 nætur. Ég fór reyndar í 5 nætur í vetur með einni nótt í Vancouver og sú ferð nýttist furðuvel. Með 8 nátta ferð færðu sjö skíðadaga sem er feikinóg. Í slíkum ferðum er líka gaman að taka einn dag í frí frá skíðunum og gera eitthvað annað skemmtilegt og það er úr mörgu að velja. Í Whistler er til dæmis mjög vinsælt að fara í snjósleðaferðir í villtri náttúrunni. Ég fór í eina slíka með nokkrum vinum í vetur með okkar eigi leiðsögumanni. Við lögðum af stað klukkan hálf átta um morgun og við vorum á sleðum í dýrðlegu veðri í fjóra tíma og vorum svo komnir á skíði eftir hádegi. Það eru svona dagar sem maður lifir fyrir. Sannkölluð fullkomnun. Við erum að vinna með sleðafyrirtæki í Whistler sem heitir Canadian Wilderness Adventures og vinsælasta ferðin þeirra heitir Backcountry X Tour og við sjáum fyrir okkur að selja mikið af þeim næsta vetur. Svo er „Heli skiing“ eitthvað sem heillar margan skíðamanninn í Whistler.

Áttu þér uppáhaldsbrekku í Whistler og hvað er svona skemmtilegt við hana?
Svæðið er svo gríðarlega stórt að það er erfitt að nefna eina uppáhaldsbrekku. Spanky‘s Ladder er frábær off piste brekka í Blackcomb sem er í miklu uppáhaldi hjá mér. Whistler megin þá eru Symphony og Harmony svæðin frábær. Það má eiginlega segja að þegar ég skíða þar þá fyllist ég frelsistilfinningu sem er engu lík. Ef ég gæti flogið þá myndi ég fljúga, en líklega kemst það að vera á skíðum það sem kemst næst því að fljúga.

Taktu þátt í ferðaleik GB-ferðir þar sem í vinning er skíðaferð fyrir tvo til Whistler í vetur. Sjá hér.