Samfélagsmiðlar

Óvissan um íslensku flugfélögin

Hlutabréfaverð Icelandair Group féll um fjórðung í gær og ennþá er ekki ljóst hver afkoma WOW air var í fyrra eða hvernig gangurinn er í ár. Flugfélögin tvö standa undir um 8 af hverjum 10 flugferðum til og frá landinu.

Icelandair og WOW air bera uppi millilandaflugið héðan.

Virði Icelandair lækkaði úr rúmum 61 milljarði niður í tæpa 46 milljarða í gærdag. Þessi mikla lækkun kemur í kjölfar afkomuviðvörunar sem fyrirtækið sendi frá sér á sunnudagskvöld þar sem fram kom að rekstrarhagnaður félagsins gæti orðið um 30 prósent lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Í úttekt sem greiningardeild Arion banka sendi frá sér í gær segir að þetta gæti þýtt að Icelandair Group verði rekið með tapi í ár.

Hinn versnandi gangur hjá Icelandair virðist, samkvæmt tilkynningunni, helst skrifast á þá staðreynd að fargjöld hafa ekki hækkað í takt við áætlanir og á sama tíma hefur olíuverð snarhækkað. Þannig kostar þotueldsneyti í dag um helmingi meira en fyrir ári síðan og þrátt fyrir að þessi kostnaður vegi þungt í rekstri flugfélaga þá endurspeglast það ekki í farmiðaverðinu. Það hefur haldist lágt. Ekki bara í flugi til og frá Íslandi heldur líka í N-Ameríku og Evrópu.

Samgöngustofa komin með ársreikning WOW

Á sama tíma og forsvarsmenn Icelandair vara við versnandi afkomu þá er ekki vitað hvernig rekstur WOW air gengur en samanlagt standa íslensku flugfélögin tvö undir um 8 af hverjum 10 áætlunarferðum héðan til útlanda. WOW air er að öllu leyti í eigu Skúla Mogensen og þarf því ekki að birta upplýsingar úr rekstri sínum opinberlega. Félagið sendir engu að síður mánaðarlega frá sér upplýsingar um fjölda farþega og sætanýtingu en þær tölur segja ekkert um hver afkoman er. Og öfugt við síðustu ár þá hefur WOW air ennþá ekki tilkynnt hvort félagið var rekið með hagnaði eða tapi í fyrra. Samgöngustofa hefur þó fengið ársreikning WOW air fyrir árið 2017 því samkvæmt svari frá stofnuninni þá var honum skilað áður en frestur til þess rann út þann 30. júní sl.

Það eru engu að síður vísbendingar um að tekjur WOW air af hverjum farþega hafi lækkað umtalsvert í fyrra. Í viðtali við Morgunblaðið í vor lét Skúli Mogensen hafa það eftir sér að velta WOW air hafi verið um 50 milljarðar í fyrra. Og líkt og Túristi greindi frá í kjölfarið gefur það til kynna að meðaltekjur flugfélagsins, á hvern farþega, hafi lækkað um fimmtung milli áranna 2016 og 2017. Hins vegar fékk Túristi það staðfest hjá upplýsingafulltrúa félagsins að fargjöld þess hefðu hækkað á fyrsta fjórðungi þessa árs.

Afkoman í fyrra gefur ekki skýra mynd af stöðunni

Hver staða WOW air er í raun og veru liggur þó ekki fyrir og þegar afkoma síðasta árs verður loks opinber þá mun sú niðurstaða ekki gefa fullkomna mynd af stöðunni. Því það er árið í ár sem er að reynast flugfélögunum erfiðara. Þannig fullyrti forstjóri Ryanair, stærsta lággjaldaflugfélags Evrópu, að þau flugfélög sem rekin voru með tapi í fyrra eigi sér enga framtíð nú þegar olíuverðið er orðið miklu hærra. Stjórnendur Norwegian hafa einnig sagt að hinn hækkandi kostnaður muni skila sér út í verðlagið en Norwegian á í miklum rekstrarvanda og þurfti nýverið að biðja hlutahafa sína um aukið hlutafé. Afkomuviðvörun Icelandair er svo nýjasta vísbendingin um að rekstur evrópskra flugfélaga sé að þyngjast verulega.

Séríslenskur skortur á upplýsingum

Það sem gerir greiningu á íslenska flugmarkaðnum erfiðan er hveru mikill skortur er á upplýsingum miðað við það sem þekkist í löndunum í kringum okkur. Þannig birta forsvarsmenn norrænu flugfélaganna SAS og Norwegian mánaðarlega upplýsingar um fargjaldaþróun en það gerir Icelandair ekki í tilkynningum sínum til kauphallar. Hið opinbera stendur sig líka mun verr í upplýsingagjöf því víða um heim birta flugmálayfirvöld mánaðarlega upplýsingar um fjölda farþega á öllum flugleiðum og jafnvel fjölda farþega eftir flugfélögum. Hvorki Isavia né Samgöngustofa vilja fylgja þessu fordæmi og hefur Túristi kært þá niðurstöðu til úrskurðarnefndar upplýsingamála. Beðið er eftir niðurstöðu nefndarinnar.

Nýtt efni

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …

Sjóðir bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing minnkuðu um 3,9 milljarða dollara á fyrsta ársfjórðungi. Upphæðin jafngildir 550 billjónum íslenskra króna og skýringin á þessum mikla fjármagnsbruna liggur í endurteknum göllum í þeim flugvélum sem fyrirtækið framleiðir. Af þeim sökum hefur bandaríska flugöryggisstofnunin takmarkað afköstin í verksmiðjum Boeing við 38 Max þotur í mánuði. Þar með þurfa flugfélög …

Fyrr á þessu ári kynnti fyrirtækið til sögunnar Precious Honeyglow anansinn sem er aðeins um 600 1000 grömm að þyngd eða um það bil helmingi minni en hefðbundinn ananas.Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að það kappkosti ávallt að uppfylla óskir kaupenda, hvort sem þær eru um sætara bragð, sjálfbærnisjónarmið og nú – stærð. Hið nýja …

Tekjur Icelandair af farþegaflugi námu rúmlega 27 milljörðum króna á fyrsta fjórðungi ársins og hafa þeir aldrei verið hærri á þessum tíma árs. Sætaframboðið hefur heldur aldrei verið meira en það jókst það um 21 prósent á milli ára og var farþegahópurinn 14 prósent fjölmennari núna en fyrstu þrjá mánuðina í fyrra. Þá stóðu farþegar …

Það seldust 183 þúsund Volvo bílar á fyrsta fjórðungi ársins sem var aukning um 12 prósent frá sama tíma í fyrra. Engu að síður dróst veltan saman um 2 prósent og rekstrarafkoman (Ebit) nam 4,7 milljörðum sænskra króna eða 61 milljarði kr. Það er töluvert undir spá greinenda sem höfðu að jafnaði gert ráð rekstrarhagnaði …

„Afkoma fyrsta ársfjórðungs var í takt við væntingar okkar en rekstrarniðurstaðan í janúarmánuði litaðist af áhrifum alþjóðlegrar umfjöllunar um eldgos á Reykjanesi. Við nýttum þann mikla sveigjanleika sem félagið býr yfir til að laga sætaframboð að markaðsaðstæðum og jukum fjölda tengifarþega um 48 prósent með aukinni áherslu á þann markað þar sem markaðurinn til Íslands …

Áður en skemmtiferðaskipin taka að fylla götur Ísafjarðar af forvitnum ferðalöngum eru tvær helgar að vori sem fylla bæinn af heldur ólíkum hópum fólks. Sú fyrri er páskahelgin þegar tónlistarfólk og áhangendur þeirra þyrpast í bæinn til að taka þátt í rokkhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður, og sú síðari er Fossavatnshelgin, sem fór fram …

Tekjur Finnair drógust saman um tvö prósent á fyrsta fjórðungi ársins þrátt fyrir að finnska flugfélagið hafi aukið framboðið. Skýringin á samdrættinum liggur í verkföllum, verri sætanýtingu og lægri tekjum af fraktflutningum samkvæmt uppgjöri félagsins sem birt var í morgun. Rekstrarkostnaður Finnair á fyrsta ársfjórðungi var á pari við sama tímabil í fyrra og tapaði …