Samgöngurnar milli Íslands og Ítalíu snarbatna

Í vetur verður hægt að fljúga héðan til tveggja fjölmennustu borga Ítalíu.

Frá Mílanó en í vetur mun WOW air fljúga þangað þrisvar í viku. Mynd: Matteo Raimondi / Unsplash

Yfir vetrarmánuðina einskorðast flugsamgöngurnar milli Íslands og Ítalíu við leiguflug með íslenskt skíðaáhugafólk til Verona. Næsta vetur verður staðan hins vegar allt önnur því þá mun Norwegian bjóða upp á beint flug hingað frá Rómarborg og WOW air mun halda úti áætlunarflugi héðan til Mílanó.

Sú borg hefur verið hluti af sumaráætlun WOW air hingað til en núna munu þotur félagsins fljúga þangað allan ársins hring. Í tilkynningu frá WOW kemur fram flogið verði þrisvar í viku, á þriðjudögum, fimmtudögum og laugardögum í Airbus A320 vélum. Brottför frá Keflavíkurflugvelli er klukkan sjö að morgni og lent í Mílanó klukkan hálf eitt að staðartíma. „Með þessum breytingum næst betur að tengja við Norður-Ameríku flug WOW air og anna þannig aukinni eftirspurn,“ segir í tilkynningu frá flugfélaginu.

Gera má ráð fyrir að með þessu sjái forsvarsmenn WOW air tækifæri í flugi milli Ítalíu og Bandaríkjanna en Alitalia, þjóðarflugfélag Ítalíu, berst í bökkum og hefur til að mynda forstjóri Ryanair, stærsta flugfélags Evrópu, spáð því að félagið ekki sér ekki langa framtíð.