Tekur aftur við markaðsmálunum eftir áratugs hlé

Breytingar á skipulagi Icelandair voru kynntar í gær og Gunnar Már Sigurfinnsson verður á ný framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair.

Gunnar Már og Birna Ósk sem bæði eiga sæti í framkvæmdastjórn Icelandair. Myndir: Icelandair

Yfirstjórn Icelandair Group og Icelandair var sameinuð í byrjun árs og þá var mynduð ný framkvæmdastjórn félagsins. Nú hafa verið gerðar breytingar á starfssviði tveggja í stjórninni því  yfirstjórn því Gunnar Már Sigurfinnsson, sem verið hefur yfir fraktflutningum Icelandair, tekur einnig við sölu- og markaðssviði flugfélagsins. Hann gegndi stöðunni á árunum 2005 til 2008.

Birna Ósk Einarsdóttir, sem gekk til liðs við félagið í ársbyrjun sem framkvæmdastjóri stefnumótunar- og viðskiptaþróunarsviðs, verður framkvæmdastjóri sviðsins.

„Undanfarið hefur verið unnin viðamikil greining á starfsemi félagsins, stefnu og áherslum til framtíðar. Að þeirri vinnu hafa fjölmargir komið, meðal annars um 600 starfsmenn víðs vegar úr starfseminni á sérstökum vinnustofum. Sú breyting sem við gerum nú á skipulaginu er afrakstur þessarar greiningarvinnu. Markmiðið er að skerpa enn frekar á áherslum okkar í sölu- og markaðsmálum annars vegar og þjónustu við viðskiptavini hins vegar og styrkja þannig félagið til framtíðar,“ segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, í tilkynningu.

Við breytinguna fækkar um einn í framkvæmdastjórn félagsins og lætur Guðmundur Óskarsson af störfum sem framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs. Hann mun starfa áfram hjá félaginu.