Þrefalt meira tap á fyrri helmingi ársins

Tap Icelandair fyrstu sex mánuði ársins nam 6,2 milljörðum króna. Forstjórinn segir félagið góðri stöðu til að takast á við áskoranir og nýta tækifæri sem upp kunna að koma. Sérfræðingar Landsbankans segja að allt þurfi að ganga upp hjá félaginu á seinni hluta árs svo spár stjórnenda gangi eftir.

Mynd: Icelandair

Árið í ár ætlar að reynast Icelandair, líkt og fleiri flugfélögum, erfiðara en þau síðustu. Í uppjöri félagsins fyrir fyrri helmingi ársins kemur fram að félagið tapaði 6,2 milljörðum en á sama tíma í fyrra nam tapið 2,1 milljörðum. Þá var félagið reyndar rekið með hagnaði á öðrum ársfjórðungi en það var ekki raunin nú og þarf að leita nokkur ár aftur í tímann til að finna taprekstur hjá félaginu á þessum hluta ársins.

Í tilkynningu frá Icelandair Group kemur fram að þrýstingur á fargjöld, lakari sætanýting og einskiptiskostnaður vegna truflana í flugáætlun skýri lækkun á afkomu á milli ára. „Afkoma annars ársfjórðungs er lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir. Spár okkar um hækkandi meðalverð á síðari hluta ársins hafa hingað til ekki gengið eftir. Þetta gerist þrátt fyrir að olíuverð hafi hækkað mikið. Samkeppnin á mörkuðum hefur sjaldan verið meiri sem kemur fram með þessum hætti. Við gerum áfram ráð fyrir að til lengri tíma muni hækkun aðfanga leiða til hækkunar meðalverðs,“ segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, í tilkynningu. Hann bætir því við að aðstæður í rekstri flugfélaga séu vissulega krefjandi um þessar mundir. „Icelandair Group er hins vegar í góðri stöðu til að takast á við áskoranir og nýta tækifæri sem upp kunna að koma við slíkar aðstæður.“

Í greinargerð sem hagfræðideild Landsbankans sendi frá sér í kvöld segir að miðað við niðurstöðuna á fyrri helmingi ársins hjá Icelandair þá verði afkoma flugfélagsins á seinni hlutanum að vera betri en á sama tíma í fyrra ef spár stjórnenda Icelandair um EBITDA hagnað eigi að ganga eftir. „Í fljótu bragði virðist allt þurfi að ganga til að efri mörkunum verði náð, þá sérstaklega á fjórða ársfjórðungi. Við erum ekki svo bjartsýnir…,“ segir í skýrslu Landsbankans.

Þar kemur fram að meðalfargjaldið hjá Icelandair hafi hækkað það sem af er ári en þurfi að hækka ennþá meira á seinni hlutanum. Það þýddi að hin mikla hækkun sem orðið hefur á þotueldsneyti myndi skila sér inn í verðlagið af meiri krafti en orðið hefur.