Þýsku ferðafólki fækkaði jafn mikið og flugferðunum til Þýskalands

Áætlunarflugið til Þýskalands drógst saman um fjórðung í júní en jókst umtalsvert til Bandaríkjanna. Ferðamannafjöldinn frá löndunum tveimur endurspeglar þessa þróun.

Mynd: Iceland.is

Bandaríkjamenn eru langfjölmennastir í hópi ferðamanna hér á sumrin og þar á eftir koma Þjóðverjar. Bandarísku túristarnir eru reyndar miklu fleiri en þeir þýsku. Í júní fyrra flugu héðan um 72 þúsund Bandaríkjamenn á meðan Þjóðverjarnir voru um 50 þúsund færri. Í nýliðnum júní breikkaði bilið umtalsvert þegar bandarísku ferðamennirnir voru um 93 þúsund en þeir þýsku rétt rúmlega 16 þúsund.

Samdrátturinn hjá þeim síðarnefndu nam því 24 prósentum í síðasta mánuði en talningar Túrista á flugumferð til og frá Keflavíkurflugvelli leiða í ljósi að áætlunarferðunum hingað frá Þýskalandi fækkaði nærri jafn mikið eða um 26 prósent. Á sama hátt jókst flugumferðin milli Íslands og Bandaríkjanna um ríflega 40 af hundraði sem er hlutfallslega meiri aukning en varð í komum bandarískra ferðamanna eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.

Þar sést hvernig flugumferðin héðan þróaðist í júní til þeirra fimm þjóða sem eru fjölmennastar í hópi ferðamanna hér á landi. Ferðafólkinu fækkaði frá Þýskalandi, Frakklandi, Bretlandi og Kanada og líka áætlunarferðunum. Þessu var öfugt farið þegar litið er til Bandaríkjanna. Vissulega er ekki aðeins hægt að skella skuldinni á færri ferðamenn á færri flugferðir því áætlanir flugfélaganna endurspegla að einhverju leyti eftirspurn á hverjum markaði fyrir sig. Það hefur til að mynda komið víða fram að hækkun íslensku krónunnar hefur haft neikvæð áhrif á sölu Íslandsferða í Þýskalandi.

Það er þó ljóst að ákvörðun stjórnenda Icelandair að hætta næturflugi héðan til Evrópu skyldi eftir sig stórt skarð á þýska markaðnum, þannig fækkaði áætlunarferðunum héðan til Munchen úr 71 í 32. Sú fækkun skrifast líka á brotthvarf Airberlin sem fór á hausinn í byrjun vetrar en félagið hafði verið stórtæki í Íslandsflugi í 12 ár, þar á meðal frá Munchen. Auk þess drógu stjórnendur Eurowings úr sínu flugi og þannig var ekki flogið hingað frá Stuttgart í sumar. Ferðunum frá Berlín fækkaði líka þónokkuð þrátt fyrir að borgin sé nú hluti að leiðakerfi Icelandair á ný. Þaðan flugu bæði Airberlin og Eurowings síðastliðið sumar en ekki í ár.

Þess ber að geta að talningar Túrista byggja aðeins á fjölda flugferða en ekki fjölda farþega. Þess háttar tölur eru ekki opinberar hér á landi öfugt við það sem þekkist í mörgum öðrum löndum. Túristi hefur kært þá afstöðu Isavia til úrskurðarnefndar upplýsingamála. Ráðherra ferðamála sagði í vikunni að hún telji ástæðu til að endurskoða upplýsingagjöfina hér á landi.