WOW air tapaði rúmum 2,3 milljörðum

Forsvarsmenn WOW air hafa birt upplýsingar um afkomuna á síðasta ári. Félagið var rekið með tapi öfugt við árin þar á undan.

Mynd: WOW air

Vöxtur WOW air hefur verið gífurlega hraður allt frá því að flugfélagið hóf flug til Bandaríkjanna um mitt árið 2015. Félagið skilaði hins vegar hagnaði það ár og líka í hittifyrra þegar afgangurinn nam nærri 4 milljörðum. Þessar jákvæðu niðurstöður úr rekstri félagsins voru kynntar í febrúar í fyrra og hittifyrra en ekkert hefur heyrst af afkomunni fyrir árið 2017. Þangað til í dag og niðurstaðan er tap upp á rúma 2,3 milljarða króna.

Í tilkynningu frá WOW segir að tekjur flugfélagsins hafi numið um 52 milljörðum í fyrra sem er aukning um  58% miðað við árið á undan. Þar segir jafnframt að horfur fyrir árið 2018 séu ágætar en að félagið standi vissulega frammi fyrir sömu áskorunum og önnur flugfélög með háu olíuverði og óvissu með gengi íslensku krónunnar.

“WOW air hefur vaxið og fjárfest gríðarlega síðustu ár en með þessum fjárfestingum höfum við verið að að tryggja langtímahorfur félagsins. Bæði 2015 og 2016 voru mjög góð ár en afkoman fyrir árið 2017 voru vonbrigði þar sem þessi mikli vöxtur og fjárfesting reyndist dýrari en við ætluðum okkur. Ytri aðstæður hafa reynst félaginu krefjandi svo sem hækkandi olíuverð, styrking krónunnar, dýrt rekstrarumhverfi á Íslandi og mikil samkeppni á lykilmörkuðum félagsins. Árið 2018 einkennist áfram af mikilli uppbyggingu og erum við mjög ánægð með þá markaðshlutdeild sem félagið hefur náð til og frá Íslandi og yfir Atlantshafið á mjög skömmum tíma. Þetta er öflugur grunnur til að byggja ofan á um ókomna tíð og til að styrkja stoðir félagsins enn frekar en við erum að skoða marga áhugaverða möguleika varðandi langtímafjármögnun félagsins” segir Skúli Mogensen forstjóri og stofnandi WOW air.