WOW flutti fleiri frá Stansted en Primera Air

Flugfélög Skúla Mogensen og Andra Más Ingólfssonar flugu samtals með um 19 þúsund farþega milli þriðja fjölmennsta flugvallar Lundúna og Norður-Ameríku í maí.

Þrátt fyrir að umferðin um Stansted flugvöll í London sé mikil þá hefur engu flugfélagi tekist að halda úti Ameríkuflugi þaðan yfir lengri tíma. Nú gerir Primera Air, flugfélag Andra Más Ingólfssonar, tilraun til að koma á reglulegu áætlunarflugi vestur um haf frá Stansted og hófust ferðirnar í apríl. Fljúga þotur félagsins til Boston, Washington borgar og New York auk Toronto í Kanada.

Á sama tíma og Primera Air hóf starfsemi sína á Stansted í vor þá bætti WOW air við flugi þangað en stór hluti farþega íslenska flugfélagsins er fólk á leið yfir hafið með millilendingu á Íslandi. WOW flýgur til sömu borga í Norður-Ameríku og Primera Air gerir og það má því segja að farþegar sem kjósa að fljúga frá Stansted til Bandaríkjanna og Kanada hafi aðeins úr tveimur flugfélögum og bæði eru þau í eigu Íslendinga. Primera Air hefur þó ekki verið með íslenskt flugrekstrarleyfi síðan árið 2009.

Nú liggja fyrir tölur bresku flugumferðastjórnarinnar um fjölda farþega í flugi til og Bretlandi í maí. Samkvæmt þeim þá flugu 10.306 farþegar milli Íslands og Stansted í maí og það hafa verið farþegar WOW air því ekkert annað flugfélag flýgur á þessari leið. Á sama tíma nýttu 8.495 farþegar sé flugið frá Stansted til Bandaríkjanna í maí með Primera Air.

Ekki fást upplýsingar frá WOW air um hlutfall skiptifarþega í flugi WOW air frá Stansted og því er ekki hægt að leggja mat á hversu stór hluti af þessum rúmlega 10 þúsund farþegum félagsins voru á leið yfir yfir hafið. Ef hlutfall tengifarþega hefur verið um helmingur þá hafa flugfélög Skúla og Andra Más samtals flutt á annan tug þúsunda farþega milli Stansted og Norður-Ameríku í maí. Til samanburður flugu um 1,7 milljónir farþega milli Bretlands og Bandaríkjanna í maí sl.

Þær tölur sem Túristi styðst við eru opinber göng í Bretlandi en ekki hér á landi. Túristi hefur kært þennan skort á upplýsingagjöf til úrskurðarnefndar upplýsingamála. Niðurstaða nefndarinnar liggur ekki fyrir.