5 þúsund fleiri milli Kaupmannahafnar og Keflavíkur

Á fyrri helmingi ársins fjölgaði farþegunum sem nýttu sér flugferðirnar héðan til dönsku höfuðborgarinnar.

Frá Terminal 3 á Kaupmannahöfn. Mynd: Ernst Tobisch / Cph.dk

Allan ársins hring fljúga þotur Icelandair, SAS og WOW air milli Keflavíkurflugvallar og Kaupmannahafnar. Yfir sumarmánuðina, þegar ferðafjöldinn nær hámarki, eru brottfarirnar héðan til dönsku höfuðborgarinnar að jafnaði rúmlega fimm á dag. Fyrstu sex mánuði þessa árs nýttu 264.213 farþegar sé þessar ferðir milli Íslands og Kaupmannahafnar sem er viðbót um 2 prósent frá sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í tölum Kaupmannahafnarflugvallar. Þess má geta að svona upplýsingar fást ekki hér á landi og hefur Túristi kært þá afstöðu Isavia.

Sem fyrr segir þá ná flugsamgöngurnar héðan til Danmerkur hámarki yfir sumarið og í júní síðastliðnum þá flugu 62.537 farþegar milli Íslands og Kaupmannahafnar. Það er meira en aðra mánuði ársins en engu að síður var samdráttur í farþegafjöldanum í júní upp á 1,3 prósent. Reykjavík eða nánar tiltekið Keflavík var þó inn á topplista danska flugvallarins yfir þær 10 flugleiðir sem flestir nýttu sér í júní síðastliðnum.

Vinsælustu flugleiðirnar til og frá Kaupmannahöfn í júní
  1. London
  2. Ósló
  3. Stokkhólmur
  4. Helsinki
  5. Amsterdam
  6. París
  7. Álaborg
  8. Berlín
  9. Reykjavík
  10. Frankfurt