Ætla að klára skuldabréfasölu innan tveggja vikna

Réttur á hlut í WOW air fylgir nú kaupum á skuldabréfum í WOW air. Gert er ráð fyrir að útboðið klárist innan tveggja vikna.

Mynd: WOW air

Fjárfestar sem taka þátt í skuldabréfaútboði WOW air fá kauprétt að hlutafé í flugfélaginu með 20% afslætti þegar það verður skráð á hlutabréfamarkað innan tveggja ára. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag og þar segir jafnframt að nokkrir erlendir aðilar hafi skráð sig fyrir stórum hluta skuldabréfaútboðsins. Ekki kemur fram hversu stórt hlutfall er um að ræða er en gert er ráð fyrir að vilyrði fyrir því sem upp á vantar verði komið eftir um hálfan mánuð. Ráðgert er að stærð útboðs WOW air nemi allt að tólf milljörðum króna og því ljóst að milljarðar eru í höfn. Þó má gera ráð fyrir að ákveðin lágmarks þátttaka verði að nást.

Í frétt Fréttablaðsins kemur jafnframt fram að vextir af skuldabréfunum verði 9 prósent og eru það ásættanleg kjör að Skúli Mogensen, eigandi og forstjóri WOW, miðað við markaðsaðstæður. Til samanburðar þá gaf skandinavíska flugfélagið SAS nýverið út skuldabréf fyrir 750 milljónir sænskra króna (8,8 milljarða íslenskra króna) og nema vextirnir af þeim 4,73 prósentum. Þau bréf eru óveðtryggð og fá því kaupendur þeirra engan rétt á hlut í SAS öfugt við það sem WOW air býður.