Áhafnamál fyrir Indlandsflug WOW kynnt á næstunni

Það er ekki útilokað að breiðþotur WOW air verði mannaðar indverskum áhöfnum.

Mynd: WOW air

Í lok þessa árs hefst áætlunarflug WOW air til Nýju-Delí í Indlandi og verður þetta fyrsta beina flugið héðan til Asíu. Í flugið mun WOW air notast við nýjar Airbus 330 breiðþotur og líkt og Túristi greindi frá í sumarbyrjun þá er ekki útilokað að um borð verði indverskar áhafnir að störfum. Aðspurð um hvort ákvörðun hafi verið tekin um þessi mál þá segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW, að félagið muni senda frá sér nánari upplýsingar um þessi mál á næstu vikum.

Ef WOW air kýs að manna flugvélarnar með Indverjum þá fetar félagið í fótspor norska lággjaldaflugfélagsins Norwegian sem réði taílenskar áhafnir fyrir áætlunarflug félagsins til Taílands. Sú ráðstöfun var gagnrýnd af skandinavískum verkalýðsfélögum sem bentu á að launakjör taílensku áhafnanna eru mun lægri en þekkist á Norðurlöndum.