Aukin áhersla á Ameríkuflug hefur ekki skilað árangri

Forsvarsmenn Icelandair drógu úr flugi til Evrópu í sumar og juku í staðinn ferðafjöldann vestur um haf. Sú stefnubreyting virðist ekki hafa borgað sig.

Bandaríska borgin Celveland er einn nýrra áfangastaða Icelandair í Norður-Ameríku. Mynd: Ferðamálaráð Cleveland

Sala á áfangastaði Icelandair í Norður-Ameríku hefur ekki verið í takt við aukið framboð á meðan eftirspurn eftir Evrópuflugi félagsins hefur verið mjög góð. Sætanýtingin í fluginu til Evrópu var því há eða 90,7 prósent í síðasta mánuði. Hlutfallið var aðeins 81,9 prósent í ferðum Icelandair vestur um haf og er það umtalsverð lækkun frá því í fyrra samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu.

Í þessu ljósi er áhugavert að skoða hvernig flugáætlun Icelandair í sumar er frábrugðin þeim síðustu. Í júlí árin 2015, 2016 og 2017 var vægi flugferða til Norður-Ameríku rétt rúmur þriðjungur eins og sjá má á súluritinu hér fyrir neðan sem byggir á talningum Túrista. Í nýliðnum júlí var hlutfallið hins vegar komið upp í 42 prósent.

Skýringuna á þeirri aukningu er meðal annars að finna í vali Icelandair á nýjum áfangastöðum. Í ár fór félagið nefnilega í jómfrúarferðir til bandarísku borganna Cleveland, Dallas, Kansas, Baltimore og San Francisco. Eina borgin í Evrópu sem bættist við leiðakerfið var Dublin, höfuðborg Írlands. Berlín í Þýskalandi er reyndar líka nýr áfangastaður en félagið tók um þráðinn á Tegelflugvelli að nýju í nóvember í fyrra.

Horfa til austurs

Þar sem hin aukna áhersla á flug til Norður-Ameríku hefur ekki skilað tilætluðum árangri má velta fyrir sér hvort forsvarsmenn Icelandair horfi nú í auknum mæli til austurs. Reyndar opnaði Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair, á þá umræðu á afkomufundi félagsins í byrjun maí. Þar sagði hann að endurnýjun flugflota félagsins gæfi færi áætlunarferðum til borga sem væru lengra og dýpra inn í Evrópu eins og hann komst að orði. Evrópuflug Icelandair hefur nefnilega, með örfáum undantekningum, takmarkast við í mesta lagi fjögurra tíma flug og þar með hafa borgir eins og Vín, Róm, Prag eða Búdapest ekki ratað inn í leiðakerfið. Á því gæti hins vegar orðið breyting núna og sérstaklega ef eftirspurnin í Bandaríkjunum hefur brugðist væntingum stjórnenda Icelandair.