Björgólfur hættir sem forstjóri Icelandair

Bogi Nils Bogason tekur við tímabundið.

Í dag sagði Björgólfur Jóhannsson starfi sínu lausu sem forstjóri Icelandair Group. Bogi Nils Bogason, fjármálastjóri félagsins, mun tímabundið taka við starfi forstjóra á meðan stjórn mun finna félaginu forstjóra til framtíðar. Þetta kemur fram í kauphallartilkynningum frá Icelandair nú í kvöld. Þar kemur jafnframt fram að afkomuspá félagsins hafi verið lækkuð.

„Lækkun afkomuspárinnar skýrist fyrst og fremst af því að tekjur verða lægri en áður hafði verið gert ráð fyrir. Fyrir því eru einkum tvær ástæður; Í fyrsta lagi gerðum við enn ráð fyrir því við gerð seinustu afkomuspár að meðalfargjöld á seinustu mánuðum ársins myndu hækka, meðal annars í takt við kostnaðarhækkanir flugfélaga. Við teljum nú að þessar hækkanir muni skila sér síðar, þ.e. ekki fyrr en á árinu 2019,“ segir Björgólfur.

„Í öðru lagi hefur innleiðing breytinga sem gerðar voru í byrjun sumars 2017 á sölu- og markaðsstarfi félagsins ekki gengið nægilega vel fyrir sig auk þess sem gerðar voru breytingar á leiðarkerfi félagsins í byrjun þessa árs sem hafa valdið misvægi á milli framboðs fluga til Evrópu annars vegar og Norður-Ameríku hins vegar. Vegna þessa hafa spálíkön, sem meðal annars byggja á sögulegri þróun, ekki virkað sem skyldi og er uppfærð tekjuspá lægri en fyrri spá gerði ráð fyrir. Það er mat okkar að lækkun farþegatekna Icelandair sem rekja megi til fyrrgreindra breytinga sé á bilinu 5-8% (50-80 milljónir USD) á ársgrundvelli. Eins og kom fram í upplýsingum sem félagið sendi frá sér í tengslum við birtingu uppgjörs á afkomu annars ársfjórðungs, hefur þegar verið gripið til aðgerða til að bregðast við þessari þróun. Þær aðgerðir eru farnar að skila árangri en við áætlum að það muni taka nokkra mánuði að sjá áhrif þeirra í afkomu félagsins. Við metum þessi neikvæðu áhrif á tekjur á þessu ári sem einskiptisliði,“ bætir Björgólfur við.

„Þær ákvarðanir sem lýst er hér að ofan eru teknar á minni vakt. Það er ljóst að þær hafa valdið félaginu fjárhagslegu tjóni á þessu ári. Ég ber sem forstjóri félagsins ábyrgð gagnvart stjórn og hluthöfum. Fyrr í dag tjáði ég stjórn að ég óskaði efir því að láta af starfi forstjóra Icelandair Group. Þó að vissulega sé búið að taka á fyrrnefndum vandamálum þá er það ábyrgðarhluti að hafa ekki fylgt breytingunum eftir með fullnægjandi hætti og brugðist fyrr við. Þá ábyrgð tel ég rétt að axla og læt því af störfum sem forstjóri félagsins. Undanfarin rúm tíu ár hafa verið allt í senn; gefandi, krefjandi og lærdómsrík. Við höfum farið í gegnum efnahagshrun og eldgos og tekist á við mikinn vöxt á stuttum tíma. Flugrekstur er í eðli sínu sveiflukenndur. Við höfum notið mikillar velgengni en einnig tekist á við krefjandi tíma. Það er á stundum sem þessum sem reynir á fyrirtæki og starfsfólk og við höfum séð á undanförnum árum hvílíkir kraftar leysast úr læðingi hjá félaginu þegar reynir á. Fyrir þeim krafti hef ég fundið sterkt á undanförnum vikum eftir að við brugðumst við fyrrnefndum vandamálum. Ég er stoltur af því sem hefur áorkast undanfarin ár og þakklátur fyrir að hafa fengið að vinna með frábæru fólki. Framtíð Icelandair Group er að mínu mati björt; félagið er fjárhagslega sterkt, með framúrskarandi starfsfólk og með góða stöðu á mörkuðum. Ég þakka samstarfsfólki og stjórn fyrir frábært samstarf sem aldrei hefur borið skugga á.“

Úlfar Steindórsson, formaður stjórnar Icelandair Group, bætir við: „Björgólfur hefur verið forstjóri Icelandair Group í yfir tíu ár, á mesta vaxtarskeiði félagsins. Hann leiddi fjárhagslega endurskipulagningu þess og hefur alla tíð lagt áherslu á ábyrgan rekstur og að vöxtur félagsins sé arðbær til lengri tíma litið. Hann skilur við fjárhagslega sterkt félag, Icelandair Group var með 251 milljón USD í handbæru fé við lok annars ársfjórðungs og 530 milljónir USD í eigin fé. Mér finnst það lýsa persónu Björgólfs vel að axla ábyrgð þegar betur hefði mátt gera. Að beiðni stjórnar mun Björgólfur vera stjórn og stjórnendum til ráðgjafar. Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála félagsins hefur fallist á ósk stjórnar um að gegna stöðu forstjóra tímabundið. Stjórnin mun gefa sér góðan tíma til að finna félaginu forstjóra til framtíðar. Ég vil fyrir hönd stjórnar þakka Björgólfi kærlega fyrir frábært samstarf og óska honum velfarnaðar í þeim verkefnum sem hann tekur sér fyrir hendur.“