Engar skíðaferðir á boðstólum

Ein stærsta ferðaskrifstofa landsins er ekki með neinar ferðir í Alpana á vetrardagskrá sinni. Það skrifast meðal annars á há fargjöld.

Frá Flachau en þar renndu áður viðskiptavinir Heimsferða sér á skíðum. Ferðaskrifstofan hefur hins vegar hætt sölu á þess háttar reisum. Mynd: Österreich Werbung/Peter Burgstaller

Skíðaferðir eru vanalega hluti af úrvalinu hjá umsvifamestu ferðaskrifstofum landsins enda margir áhugasamir um þess háttar reisur. Í fyrravetur drógu Heimsferðir sig hins vegar út af þessum markaði og buðu ekki upp á neinar ferðir til Lungau eða Flachau. Þessi austurrísku skíðasvæði höfðu lengi verið verið hluti af vetrardagskrá ferðaskrifstofunnar.

Ástæðan fyrir þessari stefnubreytingu er sú að fargjöld sem í boði voru til Salzburg í Austurríki voru óhagstæð. „Verðin sem við fáum frá WOW eru of dýr og framboðið nokkuð mikið. Við höfum því ekki verið að bjóða skíðaferðir í vetur,“ segir Tómas J. Gestsson, forstjóri Heimsferða. Gaman-ferðir, dótturfélag WOW air, býður hins vegar upp á pakkaferðir í tengslum við áætlunarflug WOW air til Salzburg.

Ferðaskrifstofunnar GB-ferðir, Úrval-Útsýn og Vita eru líka með skíðaferðir til Austurríkis á boðstólum en farþegarnir fljúga þá með Icelandair til Munchen. Þær tvær síðarnefndu eru einnig með ferðir í ítölsku Alpana á meðan GB-ferðir sérhæfa sig í skíðareisum til Colorado í Bandaríkjunum og Whistler í námunda við Vancouver í Kanada. Í báðum tilvikum er flogið með Icelandair.