Eru ekki að hefja áætlunarflug til Íslands

Breska lággjaldaflugfélagið Jet2 mun aðeins fljúga hingað 10 ferðir í febrúar og mars en ekki bjóða upp á reglulegar ferðir eins og skilja mátti af fréttum.

Þotu Jet2 mun leggja upp að Leifsstöð í febrúar og mars á næsta ári. Mynd: Jet2

Yfir vetrarmánuðina eru Bretar fjölmennastir í hópi ferðamanna hér á landi og eru flugsamgöngurnar þá tíðar. Bæði er um að ræða áætlunarflug og leiguflug. Dæmi um hið síðarnefnda eru vikulegar ferðir Thomson TUI hingað frá London og Manchester og beint flug til Akureyrar á vegum ferðaskrifstofunnar Super Break.

Nú ætlar breska lággjaldaflugfélagið Jet2 einnig að bjóða upp á leiguflug hingað frá fimm breskum borgum í febrúar og mars og eru ferðirnar kynntar sem pakkaferðir með flugi, hóteli og skoðunarferðum. Ekki er því um að ræða áætlunarflug líkt og skilja mátti af grein Morgunblaðsins þann 17. ágúst. Þar kom fram að ferðir Jet2 yrðu viðbót við framboðið á Keflavíkurflugvelli í vetur en ferðir breska flugfélagsins standa ekki farþegum hér á landi til boða því þær eru aðeins bókanlegar ef ferðalagið hefst í Bretlandi samkvæmt athugun Túrista.

Samkvæmt upplýsingum frá Jet2 munu þotur félagsins fljúga hingað frá Glasgow, Newcastle,  Leeds,  Manchester og  Birmingham í febrúar og mars. Í heildina er um að ræða 10 ferðir en til samanburðar má geta að í vetur verða áætlunarferðirnar til London álíka margar á degi hverjum frá Keflavíkurflugvelli. Viðbótin sem fylgir komu Jet2 er því lítil í því samhengi.