Samfélagsmiðlar

Flugfélögin stýra ferðamannastraumnum

Þegar nýr áfangastaður bætist við leiðakerfi Icelandair og WOW air þá fjölgar vanalega ferðamönnum hér á landi frá viðkomandi svæði. Á sama hátt fækkar gestunum þegar dregið er úr ferðafjöldanum líkt og kom berlega í ljós í júlí.

Ferðafólk við Seljalandsfoss.

Það er verulegur samdráttur í komum Þjóðverja hingað til lands og það sama á við um Evrópubúa almennt. Margir leita skýringa á þessari þróun í sterkri krónu og í viðtali við RÚV sagði Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, að verðlag á Íslandi væri ekki samkeppnishæft við önnur lönd og þess vegna fækki ferðamönnum. Bætti hann því við að markaðssvæðið í Mið-Evrópu væri viðkvæmara fyrir verðhækkunum en önnur.

Ásdís Kristjánsdóttir, hagfræðingur Samtaka atvinnulífsins, tók í svipaðan streng og bætti því við að það væri áhyggjuefni að vöxturinn væri aðallega frá einu markaðssvæði, Bandaríkjunum. Í júlí fjölgaði t.a.m. bandarísku ferðafólki verulega og stóð það undir rúmlega þriðjungi af ferðamannastraumnum.

Fall Airberlin skildi eftir sig skarð

Þegar þessar breytingar á ferðamannaflórunni eru greindar gleymist hins vegar að horfa til þess hvernig flugáætlanir flugfélaganna hafa breyst á milli ára. Þannig fækkaði áætlunarferðunum milli Íslands og Þýskalands um fjórðung í júlí og skrifast það á nokkra þætti.

Í fyrsta lagi þá varð Airberlin, næststærsta flugfélag Þýskalands, gjaldþrota í vetur en félagið hafði lengi verið umsvifamikið í Íslandsflugi og flaug til að mynda 67 ferðir hingað í júlí í fyrra. Hin þýsku flugfélögin fjölguðu hins vegar ekki ferðunum hingað á móti. Eurowings dró aftur á móti verulega saman seglin og bauð aðeins upp á Íslandsflug frá tveimur þýskum borgum en ekki fimm líkt og sumrin á undan.

Auk þess lagði Germania niður flug sitt frá Friedrichshafen. Það munaði líka mikið um niðurskurð Icelandair á næturflugi til Þýskalands og fleiri Evrópulanda.

Icelandair til Berlínar

Ástæða þess að flugfélögin fylltu ekki skarð Airberlin og skáru þess í stað niður flugið milli Íslands og Þýskalands skrifast ekki bara á minnkandi aðdráttarafl Íslands vegna hækkandi verðlags og neikvæðrar umræðu um massatúrisma á Íslandi í þýskum fjölmiðlum.

Forsvarsmenn Lufthansa og Eurowings hafa viðurkennt að það hafi reynst erfitt að taka við öllum mörkuðum Airberlin og þeir hafa greinilega sett önnur lönd í forgang en Ísland. Icelandair fór reyndar til Berlínar um leið og ljóst var að rekstur Airberlin væri að stöðvast en þar var sennilega aðallega horft til þeirra sem vildu fljúga á milli Bandaríkjanna og höfuðborgar Þýskalands en ekki til Íslands.

Þannig sagði Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair, að nýtt flug félagsins til Berlínar og Dusseldorf, sem hefst á næsta ári, væri aðallega tilkomið vegna falls Airberlin og þess markaðar sem flugfélagið skildi eftir sig fyrir áætlunarferðir til Ameríku.

Sókn íslensku félaganna í Bandaríkjunum

Hin mikla fjölgun sem orðið hefur á fjölda bandarískra ferðamanna endurspeglar á sama hátt þann aukna kraft sem Icelandair og WOW air settu í flug til Bandaríkjanna í sumar. Hvort um sig bætti fimm bandarískum borgum við leiðakerfi sitt og er það meiri viðbót en dæmi eru um. Á sama tíma hófu svo bandarísku flugfélögin United Airlines og American Airlines Íslandsflug sem hefur líka mikið að segja.

Vissulega taka flugáætlanir íslensku flugfélaganna mið af eftirspurn í hverju landi fyrir sig eftir ferðum til Íslands. Meirihluti farþega Icelandair og WOW air eru hins vegar skiptifarþegar og það er því ekki aðdráttarafl Íslands eitt og sér sem ræður því hvert þotur félaganna tveggja fljúga. Markaðurinn fyrir Atlantshafsflug vegur þar líklega þyngst og við það býr íslensk ferðaþjónusta enda standa Icelandair og WOW air undir bróðurparti alls áætlunarflugs til landsins. Það má því fullyrða að breytingar á leiðakerfum flugfélaganna hafa ekki minni áhrif á ferðamannastrauminn en sveiflur á gengi krónunnar. Áhrifin eru jafnvel meiri.

;

Nýtt efni

Nú fljúga þotur Easyjet tvær ferðir í viku frá London til Akureyrar og hefur þessari nýjung verið vel tekið af íbúum á Norðurlandi. Það eru nefnilega Íslendingar í meirihluta sætanna um borð sem skýrir afhverju gistinóttum Breta á norðlenskum hótelum hefur lítið fjölgað þrátt fyrir þessa samgöngubót. Fyrir stjórnendur Easyjet skiptir ekki máli hvort það …

Þýski bílaframleiðandinn Mercedes-Benz hefur greint frá því að rafbílnum Vision EQXX hafi á dögunum verið ekið rúmlega 1.000 kílómetra leið frá Riyadh til Dúbæ á einni hleðslu. Meðaleyðslan var 7.4 kílóvattstundir á 100 km. leið. Þetta samsvarar því að bensínbíll eyddi um 0.9 lítrum á 100 km. Ökuleið Vision EQXX lá að sögn framleiðandans um …

„Metnaðurinn hjá hópnum er einstakur og það eru lífsgæði að starfa með jafn öflugu fólki og hér er að finna hjá Play,“ sagði Birgir Jónsson, forstjóri flugfélagsins, í tilkynningu um síðustu mánaðamót. Nú liggur fyrir að Birgir mun kveðja samstarfsfólk sitt um næstu mánaðamót, nokkrum dögum fyrir þriggja ára starfsafmæli sitt hjá Play. Frá þessu …

Nefnd Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) sem fjallar um verndun sjávar hóf vikulanga fundalotu í London í morgun þar sem m.a. verður rætt um aðgerðir til að draga úr losun CO2 frá kaupskipaflota heimsins. Vinnuhópur hefur fjallað um þau mál síðustu daga. IMO er stofnun Sameinuðu þjóðanna sem ber ábyrgð á öryggi og vernd skipa og vörnum gegn …

Í tilkynningu sem ráðuneyti sem fer með ríkiskaup Póllands sendi um helgina kemur fram að LOT standi nú frammi fyrir þeirri ákvörðun að halda sig við flugvélar brasilíska framleiðandans Embraer fyrir skemmri flugleiðir eða velja frekar vélar frá Airbus í Frakklandi. Leitað verður til beggja framleiðenda og þeir beðnir um tilboð í smíði 84 flugvéla …

Loftmengun hefur minnkað í Evrópu á síðustu 20 árum, samkvæmt nýrri spænskri rannsókn. Þrátt fyrir þetta sýnir rannsóknin líka að loftmengun víðast hvar í Evrópu er enn yfir heilsufarsmörkum.  Í rannsókninni, sem birtist í Nature, voru mengunartölur skoðaðar á 1.400 svæðum, innan 35 ríkja, þar sem 543 milljónir manns búa.  Þrátt fyrir að enn sé …

„Á tiltölulega skömmum tíma er orðið til öflugt íslenskt lággjaldaflugfélag með framúrskarandi vöru og þjónustu og bjarta framtíð. Virk samkeppni í flugi sem skilar sér í lægri fargjöldum, fjölbreyttum áfangastöðum og verðmætum erlendum gestum er sérstaklega mikilvæg fyrir eyju eins og okkar. Slík samkeppni varðar hagsmuni allra Íslendinga. Ég geng þess vegna ákaflega stoltur frá …

Hvað varð um Graham Potter? spyrja margir fótboltaunnendur nú þegar liðið er næstum eitt ár síðan þessi listhneigði fótboltaþjálfari stjórnaði fótboltaliði frá hliðarlínunni. Chelsea var síðasti áfangastaður Potters en þaðan var hann rekinn þann 2. apríl árið 2023 eftir aðeins sjö mánuði í starfi. Potter mætti til Chelsea fullur af bjartsýni eftir glæsislegan þjálfaraferil í …