Flugmiðar myndu líka fást endurgreiddir hjá Netgíró

Ef rekstrarstöðvun flugrekanda verður til þess að flugmiði, sem greiddur er með Netgíró, nýtist ekki þá mun greiðslufyrirtækið borga viðskiptavininum söluverðið.

Mynd: Netgíró

Öll sú þjónusta og þær vörur sem greiddar eru með Netgíró  falla undir lög um neytendavernd. Þetta kemur fram í tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér í dag í kjölfar umræðu um óljósa stöðu viðskiptavina fyrirtækisins. Í ljós kom að forsvarsmenn fyrirtækisins gátu ekki svarað því skýrt hvort þeir sem borguðu flugmiða með Netgíró ættu rétt á endurgreiðslu ef rekstur flugrekenda myndi stöðvast.

WOW air hefur í nærri þrjú ár boðið upp á þess háttar greiðslu og nú nýverið bætti Icelandair þeim möguleika við. Þrátt fyrir umsvifin á íslenska flugmarkaðnum þá var staðan óljós og aðspurð sagði Þórunn Anna Árnadóttir, sviðstjóri hjá Neytendastofu, að það væri eðlilegt að forsvarsmenn fyrirtækja væru með þessi mál á hreinu.

Nú telja forsvarsmenn Netgíró sig hins vegar geta fullyrt að réttarstaða viðskiptavina þeirra sé sú sama og hjá þeim sem borga með greiðslukortum. Þrátt fyrir að skoðanir hjá lögspekingum um málið hafi verið misjafnar samkvæmt því sem segir í fyrrnefndri tilkynningu. „Við vildum vera sannfærð og tryggja rétt okkar viðskiptavina og eyða öllum vafa um lagalega óvissu sem hefur ríkt í þessu máli. Við hjá Netgíró óskuðum því eftir fleiri en einu lögfræðiáliti og á meðan þessi álit lágu ekki fyrir vildum við ekki fullyrða neitt sem við gætum ekki staðið við, en nú hefur þessari óvissu verið eytt. Réttur neytenda er fullkomnlega tryggður með greiðslum með Netgíró,“ segir Helgi Björn Kristinsson, framkvæmdastjóri Netgíró.

Líkt og kom fram í umfjöllun Túrista um samstarf Netgíró og WOW air þá fær flugfélagið fyrr afhent andvirði flugmiða sem greiddir eru með Netgíró en greiðslukortum.