Framkvæmdastjóri Netgíró ætti ekki að vera í vafa

Lögfræðingur hjá Neytendastofu telur það sjálfsagt að forsvarsmenn fyrirtækja þekki rétt viðskiptavina sinna. Forsvarsmenn Netgíró bíða hins vegar eftir lögfræðiáliti á stöðu þeirra sem nýta greiðsluþjónustu fyrirtækisins.

Það er ekki sama hvernig greitt er fyrir flugmiða ef rekstur flugfélagsins stöðvast áður en ferðin hefst. Mynd: Gerrie van der Walt / Unsplash

Þegar greitt er fyrir vörur og þjónustu með greiðslukorti þá eiga korthafar rétt á endurgreiðslu ef það sem þeir keyptu fæst ekki afhent. Þetta á líka við ef rekstrarstöðvun flugrekanda verður til þess að korthafi situr uppi með farmiða sem ekki nýtast. Þá getur farþeginn gert kröfu hjá útgefanda kortsins um endurgreiðslu. Staða þeirra sem sem nýta Netgíró til að greiða fyrir flugmiða hjá íslensku flugfélögunum er hins vegar óljós líkt og greint var frá fyrir helgi. Í kjölfarið hafði Morgunblaðið það eftir Helga Birni Kristinssyni, fram­kvæmda­stjóri Netgíró, að hann gæti ekki geta tjáð sig um hvort fyr­ir­tækið myndi end­ur­greiða viðskipta­vin­um sem fengu ekki full­greidda vöru eða þjón­ustu af­henta. Hann lofaði að svar fengist í þessari viku.

Aðspurð um þetta þekkingarleysi forsvarsfólks Netgíró þá segir Þórunn Anna Árnadóttir, sviðstjóri hjá Neytendastofu, að það sé að sjálfsögðu eðlilegt að fyrirtæki þekki almennt rétt viðskiptavina sinna. „Við höfum þó oft rekið okkur á það í gegnum tíðinna að fyrirtæki þekkja ekki nógu vel réttindi neytenda,“ bætir Þórunn Anna við.

Þurfa að bíða lengi eftir greiðslukortagreiðslum

Megin skýringin á því að greiðslukortafyrirtækin tryggja endurgreiðslu á vöru og þjónustu, sem ekki fæst afhent, er sú að seljandinn sjálfur fær oft ekki andvirði sölunnar fyrr en varan er komin í hendur kaupanda. Flugfélög fá því ekki alltaf söluverðið um leið og farþeginn pantar ferð. Í tilviki Icelandair skilar fjárhæð fargjalds sér yfirleitt strax inn á reikninga félagsins á meðan færsluhirðingarfyrirtækin halda eftir 80 til 90 prósent af sölu WOW air þangað til viðkomandi flugferð hefur verið farin samkvæmt frétt Vísis.

WOW fær greiðslu Netgíró fyrr

Icelandair hóf nýverið að bjóða upp á Netgírógreiðslur á meðan WOW hefur tekið á móti þess háttar síðan í árslok 2015. Þá hafði Túristi það eftir Svanhvíti Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa flugfélagsins, að þegar farþegar greiða með Netgíró þá fengi WOW air upphæðina innan við 14 dögum síðar. „Með því að fá greiðslu fyrr þá myndast sparnaður í rekstri WOW air og viljum við skila þeim sparnaði beint til farþega okkar,“ bætti Svanhvít við.

Bókunargjald WOW til skoðunar

Einn af hvötum viðskiptavina WOW air fyrir því að greiða með Netgíró er sú staðreynd að það er ódýrara en að borga með greiðslukorti. Þeir sem nýta kortin greiða 999 krónur ofan á auglýst fargjald á meðan flugfélagið tekur ekki þóknun af Netgíró. Reyndar þarf farþeginn að borga Netgíró 249 krónur fyrir greiðsluna og þar með er í raun ekki hægt að kaupa farmiða hjá WOW á því verði sem auglýst er. Þórunn Anna segir að Neytendastofa hafi verið með til meðferðar markaðssetningu WOW air m.t.t. bókunargjalds félagsins en því máli hefur ekki verið lokið formlega.