Hlutafé í WOW aukið um helming

Hlutafé í WOW air hefur verið aukið um nærri 55 milljón hluta. Ekki er um að ræða nýtt fé í rekstur félagsins.

wow skuli airbus
Skúli Mogensen forstjóri og eigandi WOW air. Mynd: WOW air

Á föstudag voru uppfærðar upplýsingar um hlutafé í WOW air hjá fyrirtækjaskrá. Samkvæmt henni var hlutafé félagsins aukið úr 107 milljónum í 162 milljónir hluta. Hlutfallslega nemur viðbótin nærri helmingi. Í svari frá WOW air, við fyrirspurn Túrista um þessi viðskipti, segir að Skúli Mogensen, eigandi og forstjóri WOW air, hafi lagt eignarhlut sinn í Cargo Express ehf. inn í WOW air á öðrum ársfjórðungi ársins. Hann hafi auk þess breytt kröfum sínum á hendur WOW air í eigið fé. Samtals mun verðmæti þessara breytinga nema yfir tveimur milljörðum króna.

Líkt og fram kom í tilkynningu sem WOW air sendi frá sér föstudaginn 13. júlí þá nam tapið af rekstri flugfélagsins nærri 2,4 milljörðum króna í fyrra. Umræðan um fjárhagslegan styrk félagsins hefur verið töluverð í framhaldinu en eiginfjárhlutfall þess var 10,9 prósent í ársbyrjun. Það þykir ekki hátt og til samanburðar var hlutfallið 42 prósent hjá Icelandair í ársbyrjun.

Af því gefnu að skuldir WOW air hafi ekki hækkað í ár má gera ráð fyrir að eiginfjárhlutfallið hafi hækkað við fyrrnefndar breytingar á skuldum við Skúla í eigið fé. Rekstur flugfélaga hefur hins vegar þyngst í ár eins og sést til að mynda á versnandi afkomu Icelandair. Tap þess félags á fyrri helmingi þessa árs er þrefalt hærra en á sama tíma í fyrra. Um mitt þetta ár var eiginfjárhlutfall Icelandair komið niður í 32 prósent og ekki ólíklegt að þróunin hafi verið álíka hjá helsti samkeppnisaðilanum hér á landi.