Hlutfall skiptifarþega á Keflavíkurflugvelli rauk upp

Á meðan fjöldi komu- og brottfararfarþega stendur nánast í stað þá fjölgar þeim sem aðeins stoppa í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á milli flugferða.

Sífellt fleiri farþegar nýta Keflavíkurflugvöll til að millilenda á leið sinni yfir hafið. Mynd: Isavia

Í júnímánuði hefur látið nærri að einn af hverjum þremur farþegum í Leifsstöð séu svokallaðir tengifarþegar. Það er fólk sem kemur hingað í flugi frá Norður-Ameríku eða Evrópu og heldur svo ferð sinni áfram yfir hafið nokkrum klukkutímum síðar. Í júní í fyrra fór hlutfall þess hóps hins vegar upp í 37,5 prósent en í nýliðnum júní rauk vægi skiptifarþeganna upp í 44,2 prósent.

Skýringuna á þessari miklu breytingu má meðal annars rekja til þess að komu- og brottfararfarþegum fjölgaði mjög lítið í síðasta mánuði. Því mátti rekja nærri alla aukninguna í síðasta mánuði til skiptifarþeganna en þó ber að hafa í hug að þeir eru taldir tvisvar sinnum í hverri ferð. Það þýðir að farþegi sem flýgur hingað frá Berlín og svo beint áfram til Boston er talinn tvisvar sinnum á leiðinni vestur um haf og aftur tvisvar þegar hann snýr heim.

Gera má ráð fyrir að hlutfall skiptifarþega hafi í verið nokkru hærra en 44,2 prósent í júní síðastliðnum því svokallaðar sjálftengifarþegar eru líklega sjaldnast taldir sem slíkir þar sem flugfélögin skrá þá sem komu- og brottfararfarþega. Skýringin á því er sú að þessir tengifarþegar eru á eigin vegum, fljúga kannski til landsins með bandarísku flugfélagi og halda svo áfram stuttu síðar með evrópsku flugfélagi.