Samfélagsmiðlar

Keyra hálftómar rútur frá Keflavíkurflugvelli

Framboð á sætaferðum til og frá Leifsstöð hefur aldrei verið meira. Talning Túrista sýnir þó að nýtingin á rútunum getur verið ákaflega lítil.

Löng röð við Flugrútuna en staðan var önnur hjá Airport Direct þann dagspart sem Túristi taldi farþega hjá fyrirtækjunum tveimur.

Þeir sem kjósa að nýta sér almenningssamgöngur til og frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar hafa úr fleiri kostum að velja en nokkru sinni fyrr. Þrjú rútufyrirtæki bjóða til að mynda upp á reglulegar sætaferðir allan sólarhringinn og Strætó keyrir út á völl yfir daginn. Samtals eru ferðir rútufyrirtækjanna þriggja um 120 á degi hverjum og er það nokkur viðbót frá því sem áður var. Ástæðuna fyrir auknu framboði má rekja til útboðs Isavia á rútustæðum beint fyrir framan komusal Leifsstöðvar sem haldið var síðastliðið sumar. Þar buðu Kynnisferðir og Hópbílar hæstu þóknunina fyrir aðstöðuna á meðan Gray Line, sem hefur um árabil haft á boðstólum sætaferðir út á Keflavíkurflugvöll, var með lægsta boðið.

Byrjað var að keyra samkvæmt nýja fyrirkomulaginu 1. mars síðastliðinn og þó Gray Line hafi ekki fengið aðgang að stæðunum beint við flugstöðina þá hélt fyrirtækið uppteknum hætti en núna frá svokölluðu fjarstæði. Isavia hóf þá gjaldtöku á því bílastæði en hana hefur Samkeppniseftirlitið nú stöðvað.

Minnkun í kjölfar meiri samkeppni

Hvað sem líður þeirri gjaldtöku þá er ljóst að framboðið á rútuferðum út á flugvöll er mikið og ekki virðist vera markaður fyrir þær allar. Þannig taldi Túristi farþega í rútum við Keflavíkurflugvöll seinnipart dags í byrjun þessa mánaðar og áberandi var hversu fáir fóru upp í rútur Hópbíla/Airport Direct. Voru farþegarnir á bilinu 4 til 15 í hverri ferð þó sæti væru fyrir 53 farþega. Aðspurður um hvort nýtingin í rútum fyrirtækisins hafi almennt verið svona lág þá bendir Hjörvar Sæberg Högnason, framkvæmdastjóri Airport Direct, á að fyrirtækið sé nýr aðili á þessum markaði og að það taki tíma að byggja upp viðskiptasambönd. „Heilt yfir hefur þetta gengið ágætlega hjá okkur frá því við byrjuðum í mars, en við höfum hinsvegar séð minnkun í kjölfar meiri samkeppni og lækkandi verðs frá samkeppnisaðilum“.

Hið lækkandi verðlag, sem Hjörvar vísar til, má þó einnig rekja til Airport Direct því þegar fyrirtækið tók við stæðunum við Leifsstöð þann 1. mars þá kostuðu farmiðar þess 2.900 krónur á meðan stakt fargjald var á 2.950 í Flugrútuna og 2.400 krónur hjá Airport Express. Stuttu síðar hóf Airport Direct svo að bjóða farmiða á 2.390 krónur en takmarkast það fargjald við ferðir utan háannatíma.

Greiða Isavia um 350 þúsund kr. á dag

Farmiðaverð í sætaferðir út á Keflavíkurflugvöll hefur hins vegar almennt hækkað í framhaldi af útboði Isavia og skýringuna á því er meðal annars að finna í auknum kostnaði fyrirtækjanna. Nú greiða t.d Kynnisferðir, sem reka Flugrútuna, 41,2% af andvirði hvers miða til Isavia og hið opinbera fyrirtæki fær þriðjung af tekjum Hópbíla/Airport Direct. Þessi endurgreiðsla til Isavia er reiknuð út frá 500 milljón króna lágmarki sem að frádregnum virðisaukaskatti nemur 127 milljónum króna á ári hjá Hópbílum/Airport Direct en 175 milljónum hjá Kynnisferðum/Flugrútunni. Fyrrnefnda fyrirtækið greiðir því að jafnaði 350 þúsund krónur á dag fyrir aðstöðuna og þarf því daglga að selja um 120 farmiða til að hafa upp í þóknunina til Isavia. Til viðbótar má þess geta að samkvæmt útreikningum Samkeppniseftirlitsins kostar um 20 þúsund krónur að keyra rútu frá Keflavíkurflugvelli og inn til höfuðborgarinnar.

Aðstaðan dýru verði keypt

Sem fyrr segir eru Kynnisferðir/Flugrútan einnig með aðstöðu beint fyrir framan Leifsstöð og þann dagspart sem Túristi taldi farþega í rútunum þá keyrðu bifreðar fyrirtækisins nær undantekningalaust nærri fullfermdar frá flugstöðinni. Hjá Gray Line/Airport Express voru farþegarnir færri og í svari til Túrista segir Þórir Garðarsson, stjórnarformaður, að það sé reynsla fyrirtækisins að það taki mjög langan tíma að byggja upp vörumerki og þar með fá góða nýtingu í sætaferðirnar til og frá Keflavíkurflugvelli. „Það er líka staðreynd að flestir þeir erlendu ferðamenn sem nýta sér ferðirnar til Reykjavíkur eru búnir að kaupa á ferðina fyrir komuna til landsins. Sölubás inn í Leifsstöð gerir þvi ekki gæfumuninn og sú aðstaða er því dýru verði keypt í dag.“

 

 

Nýtt efni

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …

Sjóðir bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing minnkuðu um 3,9 milljarða dollara á fyrsta ársfjórðungi. Upphæðin jafngildir 550 billjónum íslenskra króna og skýringin á þessum mikla fjármagnsbruna liggur í endurteknum göllum í þeim flugvélum sem fyrirtækið framleiðir. Af þeim sökum hefur bandaríska flugöryggisstofnunin takmarkað afköstin í verksmiðjum Boeing við 38 Max þotur í mánuði. Þar með þurfa flugfélög …

Fyrr á þessu ári kynnti fyrirtækið til sögunnar Precious Honeyglow anansinn sem er aðeins um 600 1000 grömm að þyngd eða um það bil helmingi minni en hefðbundinn ananas.Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að það kappkosti ávallt að uppfylla óskir kaupenda, hvort sem þær eru um sætara bragð, sjálfbærnisjónarmið og nú – stærð. Hið nýja …

Tekjur Icelandair af farþegaflugi námu rúmlega 27 milljörðum króna á fyrsta fjórðungi ársins og hafa þeir aldrei verið hærri á þessum tíma árs. Sætaframboðið hefur heldur aldrei verið meira en það jókst það um 21 prósent á milli ára og var farþegahópurinn 14 prósent fjölmennari núna en fyrstu þrjá mánuðina í fyrra. Þá stóðu farþegar …

Það seldust 183 þúsund Volvo bílar á fyrsta fjórðungi ársins sem var aukning um 12 prósent frá sama tíma í fyrra. Engu að síður dróst veltan saman um 2 prósent og rekstrarafkoman (Ebit) nam 4,7 milljörðum sænskra króna eða 61 milljarði kr. Það er töluvert undir spá greinenda sem höfðu að jafnaði gert ráð rekstrarhagnaði …