Listi yfir 500 bestu matarupplifanirnar fyrir ferðafólk

Sushi og smurbrauð eru ofarlega á blaði í nýrri úttekt Lonely Planet. Spænski pinnamaturinn hefur þó vinninginn.

Mynd: Ferðamálaráð San Sebastian

Að borða að hætti heimamanna er ein ánægjulegasta leiðin til að kynnast því landi sem ferðast er um. Heimsókn á matsölustað sem gerir matarmenningu viðkomandi þjóðar góð skil ætti því eiginlega að vera skyldustopp í hverri utanlandsferð. Það eru þó ekki víst að maturinn hitti alltaf í mark en líklegast er að pintxos matarmenningin falli í kramið hjá flestum þeim útlendingum sem ferðast um hið spænska Baskaland. Það er alla vega niðurstaða úttektar ferðaskríbenta Lonely Planet sem hafa útbúið lista yfir þá 500 matarupplifanir sem ferðamenn ættu ekki að láta fram hjá sér fara. Pintxosið í San Sebastian er þar í fyrsta sæti og smurbrauð Dana og sushi-ið þeirra í Tókýó kemst líka á listann.