Lítur Lufthansa til íslenskra flugfélaga?

Umsvifamesta flugfélag Evrópu ætlar sér að vera leiðandi í samþjöppun á evrópskum flugmarkaði. Orðrómur er uppi um að fyrirtækið skoði íslensku flugfélögin.

icelandair wow
Myndir: Icelandair og WOW air

Ört hækkandi olíuverð er ein helsta ástæða þess að rekstur flugfélaga hefur þyngst undanfarin misseri. Stjórnendur Icelandair vísa til að mynda til þess þegar versnandi afkoma flugfélagsins er skýrð. Gera má ráð fyrir að sú staðreynd að þotueldsneyti hefur hækkað um helming í verði síðastliðið ár hafi líka haft neikvæð áhrif hjá WOW air. Það félag var rekið með tapi í fyrra og er ekki varið fyrir verðhækkunum á olíu öfugt við það sem mörg flugfélög gera.

Þessum versnandi aðstæðum í flugrekstri gætu fylgt breytingar að mati forsvarsfólks stórra evrópskra flugfélaga. Nýverið sagði til að mynda Carsten Spohr, forstjóri Lufthansa Group, að sveiflur í olíuverði myndu ekki stöðva vöxt greinarinnar heldur ýta undir frekari sameiningar. „Á tímum hækkandi olíuverðs þá veikjast veiku félögin og þau sterkari styrkjast,” sagði Spohr í viðtalið við Süddeutsche.

Þessi ummæli þýska forstjórans eru meðal annars áhugaverð í ljósi þess að Lufthansa hefur stækkað umtalsvert síðustu ár og þá aðallega með því að kaupa flugfélög í nágrannalöndunum. Innan Lufthansa Group eru nú flugfélög eins og Austrian, Swiss, Eurowings og Brussel Airlines. Skandinavíska flugfélagið SAS hefur líka ósjaldan verið orðað við Lufthansa og í sumarbyrjun lýsti fyrrnefndur Spohr því yfir að Lufthansa myndi hugsanlega gera tilboð í norska flugfélagið Norwegian.

Forsvarsmenn þýska flugfélagsins leita því tækifæra þessi misserin og síðustu vikur hefur verið uppi orðrómur um að sérfræðingar á vegum Lufthansa hafi verið hér á landi til að kynna sér íslenskan flugrekstur. Heimildum Túrista ber þó ekki saman um hvort það muni vera Icelandair eða WOW air sem er til skoðunar.

Hjá Lufthansa vilja menn ekki gefa neitt út á þessar vangaveltur því í svari fyrirtækisins, við fyrirspurn Túrista, segir að reglan sé að gefa ekkert út um slíkt. Í svari Lufthansa segir þó jafnframt að stjórn þýska flugfélagsins hafi lengi lagt áherslu á að samþjöppun [flugfélaga] í Evrópu muni halda áfram. „Að sjálfsögðu mun Lufthansa fylgjast náið með þróuninni og meta þau tækifæri sem greinast. Lufthansa hefur, og verður áfram, leiðandi í sameiningum og mun því halda áfram að ræða við flugfélög í Evrópu.”