Neytendafrömuður nær sáttum við Icelandair

Farþegum í Kaupmannahafnarflugi Icelandair í sumar var ekki tilkynnt um að þeir ættu rétt á bótum vegna mikilllar seinkunar á brottför. Um borð var einn þekktasti málsvari neytenda í Danmörku og sá hefur nú fengið 100 þúsund króna bótagreiðslu frá flugfélaginu.

Vagn Jelsøe. Myndir: Icelandair og Forburgerrådet

Þegar Daninn Vagn Jelsøe ætlaði að fljúga héðan og heim til Kaupmannahafnar í júlí sl. þá seinkaði brottför Icelandair um meira en þrjá klukkutíma. Flugfélagið var því bótaskylt gagnvart farþegunum en starfsmenn þess upplýstu þó farþegana ekki um réttindi þeirra. Það þótti fyrrnefndum Jelsøe ámælisvert en hann þekkir vel réttindi flugfarþega enda í forsvari fyrir Forbrugerrådet, ein stærstu neytendasamtök Danmerkur.

Jelsøe tók því málið upp þegar heim til Danmerkur var komið og var meðal annars fjallað um það í dönskum fjölmiðlum. Benti hann til að mynda á að þær upplýsingar sem finna má á heimasíðu íslenska flugfélagsins um réttindi flugfarþega væru ekki í samræmi við evrópskar reglur. Hvað sem því líður hefur Icelandair engu að síður fallist á að greiða Jelsøe þær bætur sem hann á rétt á samkvæmt fyrrnefndum reglum og nema þær um 100 þúsund krónum fyrir hann og maka.

Í viðtali við ferðaritið Standby segir Jelsøe að hann geri sér grein fyrir því að hin skjóta afgreiðsla á bótagreiðslunni megi jafnvel rekja til stöðu hans og þá athygli sem það fékk. Hann ítrekar að flugfélög séu almennt erfið í samskiptum þegar kemur að bótagreiðslum vegna seinkana og því þurfi farþegarnir sjálfir að fylgja málunum eftir.